Rekstrarhorfur bandarískra fyrirtækja hafa versnað að undanförnu en greinendur reikna með að hagnaður verði minni á öðrum ársfjórðungi miðað við fyrstu þrjá mánuði ársins. Tímaritið Economist greinir frá þessu og segir þetta vera annan fjórðunginn í röð sem hagnaður dregst saman en það hafi ekki gerst síðan árið 2016.

Fregnir af versnandi horfum í hagkerfinu berast nú á sama tíma og hagvaxtarskeið undanfarinna ára nær þeim áfanga að vera lengsta góðæri í hagsögu Bandaríkjanna. Economist segir að góðærið sem ríkt hafi frá því að hagkerfið komst undan skugga fjármálahrunsins 2008 hafi verið undravert. Hagvöxtur hafi verið stöðugur, verðbólga lág, vextir í sögulegu lágmarki og þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi verið minna en fimm prósent hafi launahækkanir verið hófværar.

Þrátt fyrir að haganaður á fyrsta ársfjórðungi í ár hafi minnkað milli fjórðunga hafi hann engu að síður numið 2.000 milljörðum dollara, sem sé tvöfalt hærri tala enhagnaður fyrir áratugi síðan. Þetta megi m.a. þakka Trump sem lækkaði skatta á fyrirtæki úr 35% í 21. Þá hafi hann af minnkað regluverk fjármálakerfisins sem hafi leyst fjármagn úr læðingi og ýtt undir fjárfestingar.

Greinendum greinir á um hvort minnkandi framlegð sé til marks um að góðærið sé komið að leiðarlokum. Þeir sem telja að horfurnar muni halda áfram að versna bendi m.a. á að skuldsetning sem hlutfall af landsframleiðslu sé nú á sama róli og fyrir fjármálahrunið 2008. Þá séu vöruhús fyrirtækja að fyllast af óseldum vörum. Aftur á móti bendi bjartsýnni greinendur á að einkaneysla fari vaxandi sem og velta á íbúðamarkaði.