*

mánudagur, 13. júlí 2020
Erlent 24. júlí 2019 14:01

Hagnaður Nissan hrynur um 90%

Afkomuviðvörun japanska bílaframleiðandans kemur degi fyrir uppgjörsdag, þegar búist er við 10 þúsund manna uppsögnum.

Ritstjórn
Carlos Ghosn var um hríð stjórnarformaður bæði Nissan og Renault áður en hann var handtekinn vegna hneykslismála tengdum launagreiðslum.

Degi áður en þess er vænst að japanski bílaframleiðandinn Nissan Motor Co Ltd segi upp meira en 10 þúsund starfsmönnum hefur félagið sent frá sér afkomuviðvörun um að hagnaður þess hafi hrunið um 90% á öðrum ársfjórðungi frá fyrra ári.

Uppgjörið verður þó ekki endanlega birt fyrr en á morgun, en ársfjórðungurinn stefnir í að verða einn sá versti hjá fyrirtækinu í áratug. Félagið stendur í hagræðingaraðgerðum eftir áralanga útþenslu undir forystu fyrrum stjórnarformanns, Carlos Ghosn sem ýtt var til hliðar í kjölfar hneykslismála.

Þegar í maí tilkynnti félagið um niðurskurð 4.800 starfa í verksmiðjum utan Japans þar sem lítil framleiðni er, en hagnaðarhlutfallið er sérstaklega lélegt í Bandaríkjunum þar sem Ghosn hafði lagt áherslu á að vaxa mikið.

Bílar fyrirtækisins höfðu verið boðnir á miklum afsláttum í landinu til að stækka markaðshlutdeild fyrirtækisins. Einnig er búist við uppsögnum á öðrum mörkuðum eins og Indlandi og Brasilíu. „Í langan tíma vorum við að eltast við að auka söluna. Við vorum að eltast við sölutölur, nú er kominn tími til að styrkja vörumerkið,“ hefur Reuters eftir Motoo Nagai, formaður endurskoðunarnefndar fyrirtækisins.

Ef af uppsögnunum verður nema þær yfir 7% af 138 þúsund heildarstarfsmannafjölda fyrirtækisins. Fleiri vandamál mæða á Hiroto Saikawa forstjóra fyrirtækisins, enda er samstarfið við franska bílaframleiðandann Renault í uppnámi í kjölfar handtöku Ghosn sem var stjórnarformaður beggja fyrirtækja.