Sælgætisgerðin Nói Siríus ríflega tvöfaldaði hagnað sinn á milli áranna 2015 og 2016 samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Nói Siríus hagnaðist um 324,7 milljónir króna í fyrra samanborið við 145,8 milljón króna hagnað árið 2015. Rekstrarhagnaður fyrirtækisins fyrir afskriftir (EBITDA) nam 593 milljónum króna samanborið við 298 milljónir króna árið áður.

Sölutekjur Nóa Siríus námu 3.871 milljón króna árið 2016 samanborið við 3.372 milljónir króna árið 2015 og jukust um 14,8% á milli ára. Rekstrargjöld félagsins námu 3.277 milljónum króna árið 2016 samanborið við ríflega 3 milljarða árið áður.

Eignir sælgætisgerðarinnar í lok árs 2016 voru metnar á 3.450 milljónir króna samanborið við 2.666 milljónir króna í lok árs 2015. Handbært fé frá rekstri Nóa Siríus í lok árs var 101,4 milljónir króna. Eigið fé Nóa Siríus í árslok 2016 nam 1,7 milljörðum króna - en var 795,5 milljónir króna árið áður. Skuldir félagsins námu á sama tíma 1.747 milljónum króna. Nóa Siríus greiddi út 927,8 milljónir króna í laun til starfsmanna sinna á árinu og hækkar launakostnaður félagsins á milli ára. Á árinu störfuðu 159 starfsmenn hjá félaginu.

Stjórn Nóa Siríus leggur til að greiddur verði arður til hluthafa á árinu 2017 að fjárhæð 130 milljónir króna. Stærstu hluthafar í Nóa Siríus er félagið FIST ehf. með 30,4% eignarhlut, Lynghagi ehf. með 25,2% eignarhlut og Erna Finnsdóttir sem ég 9,7% eignarhlut.

Nýverið greindi Viðskiptablaðið frá því að samkvæmt heimildum blaðsins hafi Nói Siríus náð stórum samningi um sölu á vörum sínum í sérpökkuðum umbúðum til alþjóðalega smáverslunarrisans Costco. Ef salan fer vel af stað hér á landi eru uppi áætlanir um að vörur fyrirtækisins verði einnig seldar í öðrum verslunum Costco erlendis.