Hagnaður Norðurorku nam 710 milljónum króna í fyrra og var meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Að því er segir á vef Norðurorku skýrist það að mestu af tryggingabótum upp á 205 milljónir króna sem dótturfélagið Fallorka fékk greiddar vegna hamfaratjóns á virkjunum félagsins í Djúpadal árið 2006. Hagnaður Norðurorku árið 2011 var 473 milljónir.

Eigið fé samstæðunnar er tæpir 5,8 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 60%. Norðurorka greiddi niður lán á liðnu ári um rúmar 500 milljónir króna og ráðgert er að greiða niður skuldir á þessu ári um að minnsta kosti 400 milljónir. Á aðalfundi félagsins var ákveðið að greiða 129 milljónir króna í arð til eigenda en Akureyrarbær er langstærsti hluthafinn.