Hvalaskoðunarfyrirtækið Norðursigling hf. hagnaðist um 48,4 milljónir króna í fyrra. Hagnaðurinn dregst lítillega saman á milli ára, en árið 2015 hagnaðist félagið um 50,8 milljónir króna, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Í fyrra námu tekjur félagsins ríflega milljarði og jukust talsvert á milli ára, en þær námu 795,5 milljónir króna árið áður.

Rekstrargjöld fyrirtækisins í fyrra námu 976,2 milljónir króna, samanborið við 684,7 milljónir króna í fyrra. Rekstrarhagnaður Norðursiglingar var 68,2 milljónir króna í fyrra en 78 milljónir árið áður.

Í árslok 2016 námu eignir Norðursiglingar 1,3 milljörðum króna og jukust þær um 300 milljónir milli ára. Skip og bátar félagsins eru metin á 764,9 milljónir króna samkvæmt rekstrarreikningnum. Eigið fé félagsins nam 465,6 milljónum króna í árslok 2016. Skuldir Norðursiglingar 889,3 milljónir í lok síðasta ár og jukust þær verulega á milli ára en í lok árs 2015 námu skuldir fyrirtækisins 485,2 milljónir króna.