Norvik hf., ein stærsta verslunarsamstæða landsins, hagnaðist um 1,1 milljarð króna í fyrra. Á meðal eigna Norvik eru verslunarkeðjurnar BYKO, Krónan, Nóatún, ELKO og Intersport. Auk þess á félagið fyrirtæki í Eistlandi, Lettlandi, Svíþjóð og Englandi. Þetta kemur fram í ársreikningi Norvik sem skilað var inn til ársreikningaskráar 9. september síðastliðinn.

Stærstu eigendur Norvik eru danska félagið Decca Holding ApS (27%), Jón Helgi Guðmundsson (24%) og Straumborg (22%) sem er í eigu Jóns Helga og barna hans.

Eigið fé 6,8 milljarðar

Hagnaður Norvik nánast fjórfaldaðist á milli ára. Hann var um 300 milljónir króna á árinu 2009 en um 1,1 milljarður króna í fyrra. Heildarvelta Norvik-samstæðunnar var 61,3 milljarðar króna og jókst um tæpa fjóra milljarða króna á árinu 2010. Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði (EBITDA) var 3,5 milljarðar króna, eða um 500 milljónum krónum meiri en árið áður.

Eignir Norvik voru metnar á 31 milljarð króna um síðustu áramót og eigið fé félagsins 6,8 milljarðar króna. Skuldir þess voru 24,3 milljarðar króna en Norvik breytti öllum erlendum skuldum sínum í íslenskar krónur á árinu 2010. Félagið greiddi sér ekki út arð á síðasta ári.

Kaupás jók vörusölu

Kaupás, dótturfélag Norvik, sem rekur m.a. Krónuna og Nóatún, hagnaðist um 464 milljónir króna í fyrra. Mikil viðsnúningur varð í rekstri félagsins á milli ára en það skilaði rúmlega 40 milljóna króna tapi á árinu 2009.

Vörusala verslana sem heyra undir Kaupás jókst um 2,2 milljarða króna í fyrra og var 22 milljarðar króna. Framlegð af vörusölu var 4,1 milljarður króna. Eigið fé Kaupáss um síðustu áramót var um 800 milljónir króna. Því er ljóst að Norvik græddi peninga á matvöruverslunarkeðjum sínum í fyrra.

BYKO tapar og skipt upp

Verslunar- og iðnfyrirtækið BYKO ehf. rekur meðal annars BYKO, ELKO og Intersport-verslanir víðsvegar um landið. Félagið er í 100% eigu Norvikur. BYKO tapaði 416 milljónum króna á árinu 2010 sem er mun meira en árið áður þegar félagið tapaði 128 milljónum króna. Helstu ástæður þess er að finna í samdrætti í veltu. Rekstrartekjur BYKO drógust saman um 1,1 milljarð króna í fyrra og voru 16,1 milljarður króna.

Í desember 2010 samþykkti stjórn BYKO skiptingaráætlun miðað við 1. janúar 2011 þar sem félaginu var skipt í fjögur félög, BYKO, ELKO, Intersport og Egill vélaverkstæði. Samkvæmt ársreikningi félagsins er tilgangur skiptingarinnar að aðskilja betur rekstur einstakra rekstrareininga.