Hagnaður fjarskiptafyrirtækisins Nova nam tæplega 1,5 milljörðum króna árið 2017. Árið 2016 nam hagnaðurinn rúmlega 1,2 milljörðum króna og aukningin því tæp 19% á milli ára.

Mestu munar um nettó fjármunatekjur sem voru jákvæðar um 179 milljónir en árið áður voru þær neikvæðar um 64 milljónir króna. Rekstrarhagnaður var hins vegar lítillega lægri heldur en árið áður og nam rúmum 1,6 milljörðum.

Heildareignir Nova voru samtals 6,2 milljarðar í loks árs 2017 og eigið fé 4,5 milljarðar. Eiginfjárhlutfall nam því 72,2%.

Handbært fé lækkaði nokkuð á milli ára. Í ársbyrjun var það 942 milljónir en nam aðeins 154 milljónum í árslok. Skýrist það að mestu af auknum fjárfestingarhreyfingum en veltufé frá rekstri jókst nokkuð samanborið við árið áður.

Laun stjórnar og framkvæmdastjórnar félagsins námu alls 122,1 milljón króna á árinu.