Rekstraráætlun Nova var unnin árið 2006 og gerði hún ráð fyrir því að EBITDA fyrirtækisins yrði jákvæð eftir þrjú ár í rekstri og að fyrirtækið skilaði hagnaði á fjórða ári. „Þetta hefur gengið eftir,“ segir Liv Bergþórsdóttir, forstjóri fyrirtækisins. „Árið 2011 var EBITDA hjá Nova 504 milljónir króna og hagnaður félagsins um 374 milljónir. Tekjur jukust töluvert frá árinu 2010, eða úr 3.165 milljónum í 3.750 milljónir. Félagið er skuldlaust.“

Liv segir að farsímafyrirtæki þurfi að skila myndarlegum rekstrarhagnaði á næstu árum til að geta staðið undir þeim fjárfestingum sem framundan eru. „Það mun kosta sitt að setja upp 4G kerfi og reksturinn núna verður að standa undir þeim fjárfestingum.“ Björgólfur Thor Björgólfsson á nær allt hlutafé í Nova í gegnum tvö félög, Novator ehf. og Novator Finland Oy. „Samstarfið við Björgólf hefur gengið vel, en almennt erum við ekki að hugsa mikið um það hver á félagið, heldur einbeitum okkur frekar að því að reksturinn gangi sem best og að viðskiptavinir okkar séu ánægðir.“