Hagnaður tískufatafyrirtækisins NTC nam 457 milljónum króna á síðasta ári. Það er viðsnúningur frá síðasta ár þegar hagnaðurinn nam 21 milljón króna en breytingin skýrist að mestu af leiðréttingu lána um tæpar 915 milljónir króna. NTC er í eigu Svövu Johansen en undir samstæðuna heyra fyrirtæki á borð við Gallerí sautján, GS skór, Eva, Smash og fjöldi annarra verslana.

„Eins einkennilegt og það er þá virðumst við bara hafa verið mjög heppin að vera með erlent lán,“ segir Svava. „Þetta voru ólögleg lán sem eru þar af leiðandi leiðrétt,“ bætir hún við. „Við erum mjög sátt við þessa niðurstöðu. Við höfum fundið það að þegar maður er heiðarlegur þá vill bankinn vinna með manni,“ segir Svava. „Við erum bara með kennitölu síðan 1976 og rekum hana áfram.“

Selja vörur fyrir tvo milljarða

Í árslok 2010 voru skuldir NTC 943 milljónir króna umfram peningalegar eignir og var vafi talinn leika á framtíðarrekstrarhæfi félagsins. Sá fyrirvari hefur verið fjarlægður úr ársreikningi ársins 2011.

Skuldir hafa sligað rekstur félagsins eftir gengishrun krónunnar. Samkvæmt ársreikningi félagsins árið 2008 námu erlendar skuldir félagsins þá rúmum milljarði króna. „Það er ekki verið að gera neitt aukalega fyrir okkur. Við erum í sömu stöðu og svo margir sem voru með erlend lán,“ sagði Svava þá í samtali við Viðskiptablaðið. Að endurskipulagningu lokinni nema langtímaskuldir félagsins 435 milljónum króna, að meðtöldum afborgunum næsta árs.

Samkvæmt ársreikningi síðasta árs nemur eigið fé félagsins nú 43 milljónum króna en er þá talið með hlutafé að fjárhæð 97 milljónir króna. Eigið fé félagsins var á síðasta ári neikvætt um 483 milljónir króna.

Framlegð NTC af vörusölu nam 842 milljónum króna en fyrirtækið seldi vörur fyrir tæpa tvo milljarða króna.