Hagnaður Nýherjasamstæðunnar á fyrsta ársfjórðungi nam 64 milljónum króna, samanborið við 130 milljóna tap á fyrsta ársfjórðungi 2010. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 160 milljónir en hann var  35 milljónir á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Í tilkynningu frá félaginu segir að ágæt afkoma hafi verið af rekstri erlendra dótturfélaga og að rekstrarhagnaður hafi batnað um 52 milljónir króna milli ára. Nýtt skipulag fyrir innlenda starfsemi félagsins tók gildi 1. apríl sl.

Þórður Sverrisson forstjóri segir í tilkynningu: „Starfsemi Nýherja gekk vel í fyrsta ársfjórðungi og var rekstur og afkoma í meginatriðum samkvæmt áætlun og nam EBITDA 160 mkr á tímabilinu. Afkoma erlendrar starfsemi var ágæt og nam EBITDA 55 mkr samanborið við 3 mkr á síðasta ári. Með breytingum á skipulagi innlendrar starfsemi, sem tók gildi 1. apríl síðastliðinn, skapast tækifæri til að ná auknum slagkrafti í rekstri samstæðunnar með færri og sterkari einingum, þannig að mæta megi betur síbreytilegum þörfum viðskiptavina okkar.”