Velta Controlant tuttugufaldaðist á milli áranna 2019 og 2021, og fór úr 400 milljónum í um átta milljarðar króna. Félagið skilar hagnaði í fyrsta sinn á árinu 2021. Gísli segir bæði Pfizer og bandaríska ríkið hafa viljað tryggja að félagið lenti ekki í fjárþröng á meðan það væri að vaxa svo hratt. Controlant hefur haft eftirlit með öllum bóluefnasendingum við Covid-19 á vegum bæði Pfizer og bandaríska alríkisins. „Við höfum verið mjög heppin og fengið góðan stuðning.“

Controlant hefur stefnt að því að átttil tífalda veltuna á næstu fimm árum þannig að hún nemi um 65-80 milljörðum króna. Til að svo megi verða er til skoðunar hjá félaginu að sækja sér aukið fjármagn. Félagið lauk síðast skulda- og hlutafjárútboði í september síðastliðnum þar sem félagið safnaði um tveimur milljörðum króna. Þá bættust m.a. VÍS og Sjóvá í hluthafahópinn. Töluverð viðskipti hafa verið með bréf Controlant á árinu en nýleg viðskipti með bréf félagsins miða við að verðmæti félagsins hafi fimmfaldast á einu ári og sé orðið verðmætara en meirihluti félaga í Kauphöll Íslands.

Matvælageirinn næstur á dagskrá

Markmið næsta árs er að ljúka innleiðingu á lausn Controlant hjá hinum stóru lyfjafyrirtækjunum sem þegar er hafin en það sé töluvert verkefni sem krefjist aðlögunar á báða bóga. „Við höfum þurft að læra hvernig við getum aðlagað lausnina okkar að alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum með starfsemi í 50 löndum.“

Sjá einnig: Ótrúlegur uppgangur Controlant

Controlant er ekki síður með metnaðarfull markmið í matvælageiranum en lyfjageiranum. Félagið vill nýta lausnina til að minnka matarsóun í flutningum. Enda er talið að um þriðjungur af framleiddum mat í heiminum endi í ruslinu og þar af séu um 40% sem skemmist í flutningum áður en maturinn skilar sér til neytenda. Gísli segir að hægt sé að koma í veg fyrir þessa miklu sóun en til þess þarf bæði breytt vinnubrögð og breytta hugsun.

Í matvælageiranum sé ábyrgð framleiðenda á flutningum ekki eins skýr og í lyfjaiðnaðinum. Lyfjafyrirtækin eru ábyrg fyrir því að lyf komist í heilu lagi á áfangastað. „Við höfum verið með töluvert stór verkefni í matvælaiðnaði. Okkar framtíðarsýn er að minnka sóun og auka þannig sjálfbærni og við höfum séð hvernig það er hægt í lyfjaiðnaðinum. Okkur langar að taka slag við matvælageirann þar sem við minnkum matarsóun um 70-90% en til þess þurfa matvælaframleiðendur að taka meiri ábyrgð á flutningsnetinu,“ segir Gísli.

Nánar er rætt við Gísla Herjólfsson um uppgang Controlant í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .