Ekkert lát virðist ætla að verða á erfiðleikum tævanska farsímaframleiðandans HTC. Samkvæmt óendurskoðuðum reikningum fyrirtækisins fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs dróst hagnaður saman um 70% frá sama tíma í fyrra og tekjur drógust saman um 35%. Er þetta í takt við þróunina sem hófst um mitt síðasta ár þegar tekjur tóku að minnka, einkum vegna aukinna vinsælda Galaxy símanna frá Samsung.

Þegar þróunarinnar varð fyrst vart í fyrra sögðu sérfræðingar að vöruúrval HTC væri of mikið og of flókið. Í kjölfarið tóku stjórnendur HTC þá ákvörðun að fækka stórlega nýjum símum. Vandamálið var hins vegar það að enginn af símum HTC gat keppt við Samsung Galaxy S II símann. Í staðinn lækkaði HTC verðið á sínum símum án þess að það hafi haft umtalsverð áhrif á sölutölur. Rekstrarhagnaður dróst hlutfallslega meira saman en tekjur almennt.