Velta ölgerðarinnar á síðasta rekstrarári, sem lauk í febrúar 2018, var 24 milljarðar króna, og dróst saman um 3,3% milli ára. EBITDA dróst einnig saman og var 1,8 milljarðar, samanborið við 2 milljarða árið áður.

Hagnaður dróst svo verulega saman og var 137 milljónir, en hafði verið 808 árið áður, sem er 83% samdráttur.

Í tilkynningu frá Ölgerðinni um málið segir að kaup á fasteignum, fjárfesting í nýju fyrirtæki og sókn á innlendan mjólkurmarkað setji mark sitt á rekstrarárið, en jafnframt hafi launakostnaður aukist um 10%.

Þá segir að veltusamdrátturinn endurspegli meðal annars verðhjöðnun á dagvöru, og aukna samkeppni.

„Sem fyrr var árið afar spennandi fyrir Ölgerðina og fasteignakaup fyrirtækisins eru stór þáttur í því að styrkja það til komandi ára. Sókn Býlisins okkar inn á mjólkurmarkaðinn er afar spennandi og við bindum miklar vonir við árangur á því sviði. Vörur fyrirtækisins njóta almennt mikilla vinsælda og tryggð neytenda við okkar vörumerki er mikil. Fyrir það erum við þakklát og reynum að standa undir því trausti og halda áfram að bjóða landsmönnum upp á gæða vörur á hagstæðu verði,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.