Rekstrarhagnaður Ölgerðarinnar fyrir afskriftir (EBITDA) nam 4,56 milljörðum króna á fjárhagsárinu 2022, sem lauk þann 28. febrúar, samkvæmt drögum að ársuppgjöri félagsins.

Við birtingu níu mánaða uppgjörs um miðjan janúar sagðist félagið gera ráð fyrir að EBITDA-hagnaður félagsins yrði við efri enda áður útgefinnar afkomuspár, sem var bilinu 4,1-4,4 milljarðar króna.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir Ölgerðin að nokkrir þættir valdi betri afkomu. Félagið nefnir sérstaklega fjölgun ferðamanna til Íslands sem hefur leitt til aukinna umsvifa á hótel- og veitingamarkaði.

„Talsverð aukning varð í seldum lítrum af drykkjarvörum og styrktu vörumerki félagsins sig í sessi, einkum í bjór og áfengum drykkjarvörum. Framleiddir lítrar jukust um 14% milli ára og framleiddar einingar um 17%.“

Ölgerðin segir einnig að hagræðing í rekstri hafi skilað því að félagið hefur ekki þurft að hækka framleiðsluvörur sínar í samræmi við almenna verðlagsþróun.

Besta ár í sögu Icelandic Spring

Ölgerðin segir að tekjur félagsins vegna vatnsútflutnings Iceland Spring ehf. hafi vaxið talsvert og „árið 2022 var það besta í rekstri Iceland Spring frá upphafi“. Sala félagsins, sem Ölgerðin á 40% hlut í, á vatni hafi tvöfaldast frá árinu 2020.

Ölgerðin ítrekar að framangreindar upplýsingar séu ekki byggðar á endanlegu uppgjöri eða endurskoðuðum niðurstöðum. Endanlegur ársreikningur félagsins fyrir fjárhagsárið 2022 verður birtur eftir lokun markaða 18. apríl næstkomandi.