Hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur dróst saman um nærri þriðjung milli ára á þriðja ársfjórðungi, en hann fór úr rúmlega 1,7 milljörðum króna fyrir ári síðan í tæplega 1,2 milljarða króna nú. Á sama tíma lækkuðu tekjur Orkuveitunnar um 2,1%, en þær námu nu 10,1 milljarði króna, en rekstrargjöldin drógust meira saman eða um 2,8% og námu 3,8 milljörðum króna.

Af rekstrarkostnaðinum stóð liðurinn orkukaup og flutningur nánast í stað, meðan launakostnaðurinn jókst um 11,4%, en annar rekstrarkostnaður dróst saman um nærri 22%, úr ríflega 1,2 milljarði í 964 milljónir króna.

Rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) lækkaði um 1,7%, í 6,3 milljarða króna. Afkskriftirnar jukust um ríflega þriðjung, 35,3%, úr ríflega 2,3 milljörðum króna í 3,2 milljarða.

Rekstrarhagnaðurinn eftir afskriftirnar (EBIT) lækkaði því um ríflega fimmtung, eða 23,3%, úr 4 milljörðum í 3,1 milljarð. Tap af fjármagnsliðum lækkaði einnig eða um akkúrat fimmtung, úr 2,3 milljörðum í 1,8 milljarða króna og lækkaði því hagnaðurinn fyrir tekjuskatt um 27,5%, úr 1,7 milljörðum í 1, 3 milljarða.

Eiginfjárhlutfallið lækkar eilítið

Það sem af er ári hefur eigið fé félagsins aukist um 4,4%, úr 160,8 milljörðum króna í 167,9 milljarða króna, meðan skuldirnar jukust um 5,0%, úr 179,3 milljarða í 188,3 milljarða króna. Þar með hafa eignir félagsins aukist um 4,9%, úr 313,6 milljörðum króna í 329,1 milljarð króna, og því eiginfjárhlutfallið lækkað eilítið eða úr 51,3% í 51%.

Heildarafkoma Orkuveitunnar á fyrstu níu mánuðum ársins nam 4,5 milljörðum króna, sem er lækkun um 23,8% frá sama tíma fyrir ári síðan þegar hagnaðurinn nam 5,9 milljörðum króna. Það var hins vegar nærri helmingun hagnaðar frá sama tíma árið þar áður þegar hann var 10,5 milljarðar króna, sami tími árið 2016 gaf 9,4 milljarða hagnað en 3,1 milljarð árið 2015.

Kostnaður eykst vegna uppbyggingar íbúðarhúsnæðis

Tekjurnar jukust eilítið á milli ára, eða úr 33,5 milljörðum í 33,6 milljarða, en kostnaðurinn jókx, meðal annars að sögn fyrirtækisins vegna vaxandi umsvifa á húsnæðismarkaði. Eru tölurnar sagðiar komnar til vegna uppbyggingar þar og nauðsynlegra endurnýjarn mikilvægra hita- og vatnsveituæða, en útlit sé fyrir að úr slíkum fjárfestingum dragi á næstu árum.

Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum nam 13,1 milljarði króna fyrstu níu mánuði ársins en var 10,4 milljarðar króna á sama tímabili 2018, sem að hluta til er fjármagnað með útgáfu svokallaðra grænna skuldabréfa. Innan samstæðunnar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur.

Uppfærsla orkumæla viðskiptavina framundan

Ingvar Stefánsson framkvæmdastjóri fjármála OR segir fjárhagsstöðu fyrirtækisins og dótturfélaganna trausta. „Það sést meðal annars á því að þrátt fyrir miklar fjárfestingar hafa Veitur orðið við áskorunum verkalýðssamtaka og samtaka atvinnurekenda um að halda verði fyrir grunnþjónustu sem stöðugustu. Þá stendur eignfjárhlutfall nánast í stað og heildarafkoman er vel viðunandi. Við sjáum líka á þeim kjörum sem OR fær á fjármálamarkaði að lánveitendur telja reksturinn traustan,“ segir Ingvar.

„Framundan eru mikilvæg verkefni í starfseminni. Ein stærsta einstaka fjárfesting okkar á næstu árum er uppfærsla á orkumælum viðskiptavina. Hún mun taka nokkur ár en gera okkur kleift að auka og bæta þjónustuna. Við erum líka stöðugt að meta áhrif loftslagsbreytinga á okkar starfsemi, til lengri og skemmri tíma.“