Planið svokallaða, aðgerðaráætlun Orkuveitu Reykjavíkur frá því árið 2011 til að takast á við fjárhagsstöðu fyrirtækisins átti að skila um 50 milljörðum króna betri sjóðsstöðu fyrirtækisins.

Nú þegar ársreikningur OR fyrir árið 2016 liggur hins vegar fyrir er ljóst að niðurstaðan varð betri um 60 milljarða.

Styrking krónunnar eykur hagnað

Rekstrarafkoma síðasta árs var svipuð og síðustu ár, en verulegur aukinn hagnaður kemur til af háu gengi íslensku krónunnar, en hann nam 13,4 milljörðum króna á árinu.

Árið 2015 nam hann tæpum 4,2 milljörðum króna.Jafnframt hefur gengið áhrif á erlenda skuldastöðu fyrirtækisins en lækkun nettóskulda fyrirtækisins frá árinu 2009 nemur tæpum 100 milljörðum króna. Á sama tíma hefur eiginfjárhlutfallið nærri þrefaldast og nam arðsemi eigin fjár 12,0%.

Rekstrarhagnaður EBIT nam 15 milljörðum króna sem er 3,7% betri afkoma af rekstri en árið 2015. En EBITDA fyrirtækisins nam 25,4 milljörðum króna sem er eilítil hækkun frá fyrra ári þegar hún var tæpar 25,2 milljarðar.

Rekstrartekjur síðasta árs voru 1,1 milljarði króna meiri en ársins 2015 en gjöld jukust einnig milli ára eða um 880 milljónir, sem að stórum hluta kemur til vegna kjarasamningsbundinna launahækkana.

Planið frá 2011 gekk upp

Segir í fréttatilkynningu frá Orkuveitunni að rekstrargjöld síðasta árs hafi verið lægri að raunvirði heldur en árið 2010, sem rekja megi til niðurskurðar sem ráðist var í, við upphaf áætlunarinnar sem ber nafnið Planið, auk aðhalds í rekstri síðan.

Segir þar jafnframt að þessi sparnaður hafi skilað sér beint til viðskiptavina með lækkun ýmissa veitugjalda um síðustu áramót.

Eins og áður segir er aðgerðaráætluninni, Planinu, nú hér með lokið en samkvæmt lokaskýrslu þess batnaði sjóðstaða OR um 60,2 milljarða króna vegna þess, en upphaflegt markmið var 51,3 milljarðar króna.

Skiluðu þar innri aðgerðir fyrirtækisins 20% meira en lagt var upp með en ytri þættir skiluðu 13% umfram markmið. Fengust tæp 18% af árangri plansins með gjaldskrárbreytingum og nam sparnaður á tímabili Plansins 8,0 milljörðum, sem var 60% umfram markmið.