Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur skilaði 13.729 milljóna króna hagnaði árið 2010 samanborið við 2.516 milljóna króna tap á árinu 2009. Ársreikningur OR var birtur í dag ásamt því að aðhaldsaðgerðir voru kynntar. Vaxtaberandi skuldir OR nema samtals um 225 milljörðum króna samkvæmt nýbirtum ársreikningi. Á gjalddaga í ár eru um 16,4 milljarða króna skuldir.

Líkt og greint hefur verið frá er fjárþörf OR metin á um 50 milljarða á árunum 2011-2016. það bil verður brúað með því að fresta nýfjárfestingum og viðhaldsverkefnum í dreifikerfi, draga enn frekar úr rekstrarkostnaði, selja eignir, hækka fráveitugjald og gjald fyrir heitt vatn. Þá mun OR fá víkjandi lán hjá eigendum sínum þegar í stað og þannig verður komið í veg fyrir sjóðþurrð sem ella stefnir í hjá fyrirtækinu fyrir mitt ár 2011, að því er fram kemur í tilkynningu.

Helstu stærðir úr ársreikningi:

Rekstrartekjur ársins námu 27.916 milljónum króna en voru 26.013 milljónir króna árið áður.

Hagnaður fyrirtækisins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, EBITDA, var 13.951 milljón króna samanborið við 12.970 milljónir króna árið áður.

Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 10.753 milljónir króna á árinu, en voru neikvæðir um 8.843 milljónir króna árið 2009.

Heildareignir þann 31. desember 2010 voru 286.540 milljónir króna en voru 281.526 milljónir króna 31. desember 2009.

Eigið fé þann 31. desember 2010 var 52.847 milljónir króna en var 40.657 milljónir króna 31. desember 2009.

Heildarskuldir fyrirtækisins þann 31. desember 2010 voru 233.694 milljónir króna en voru 240.868 milljónir króna í árslok 2009.

Eiginfjárhlutfall var 18,4% þann 31. desember 2010 en var 14,4% í árslok 2009.

Ársreikningur Orkuveitu Reykjavíkur .