Orkuveita Reykjavíkur (OR) hagnaðist um 1,7 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 520 milljóna tap á á sama tíma í fyrra. Hins vegar er afkoma OR neikvæð um 900 milljónir á fyrri helmingi ársins þar sem fyrirtækið tapaði 2,6 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi.

Rekstrartekjur OR á öðrum ársfjórðungi námu 11 milljörðum og jukust um 147 milljónir milli ára eða um 1,4%. Rekstrarkostnaðurinn var 5,2 milljarðar á tímabilinu og jókst um 306 milljónir milli ára eða um 6,3%. EBITDA Orkuveitunnar nam því 5,8 milljörðum. Afskriftir voru 3,2 milljarðar og því var rekstrarhagnaður OR 2,6 milljarðar.

Í tilkynningu OR segir að vegna reikningsskilastaðalsins IAS 34 er lækkun á álverði frá ársbyrjun, sem hefur áhrif á tekjur af raforkusölu, reiknuð mörg ár fram í tímann en færð til bókar í hverju uppgjöri. „Áhrif þessa á heildarafkomu OR á fyrstu þremur mánuðum þessa árs voru mjög mikil, eða liðlega 10 milljarðar króna. Þetta gekk til baka um 1,9 milljarða á öðrum ársfjórðungi. Þessar færslur hafa ekki áhrif á rekstrarhagnað, sjóðstöðu eða getu fyrirtækisins til fjárfestinga en hafa áhrif á reiknaða heildarniðurstöðu árshlutauppgjörsins.“

Eignir voru 400 milljarðar í lok júní, en þar af námu fastafjármunir 363 milljörðum og veltufjármunir 37 milljörðum. Eigið fé var 189 milljarðar, skuldir 211 milljarðar og eiginfjárhlutfall því 47,2% í lok annars ársfjórðungs.

„Núna þegar kreppir að í samfélaginu vegna veirunnar, sjáum við hvað það skiptir miklu að hafa náð að snúa fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur til hins betra á sínum tíma,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri OR. „Frá því samdráttar vegna kórónuveirunnar fór að gæta seint síðasta vetur, hafa fyrirtækin í samstæðunni haft afl til að axla samfélagslega ábyrgð. Það hefur sýnt sig meðal annars í auknum fjárfestingum og fjölgun sumarstarfsfólks.“

„Rekstraruppgjör Orkuveitu Reykjavíkur eftir fyrri helming þessa sérkennilega árs sýnir að við höfum styrk til að halda áfram að leggja okkar af mörkum.“

Krafa Glitnis komin upp í 3,1 milljarð

Meðal annarra skammtímaskulda í efnahagsreikningnum eru færðir gjaldfallnir afleiðusamningar að fjárhæð 740 milljónir. Í byrjun júlí 2020 dæmdi Héraðsdómur Orkuveitunni í óhag og dæmdi félagið til að greiða þrotabúi Glitnis 747 milljónir auk dráttarvaxta vegna uppgjörs á fyrrnefndum afleiðusamningum. Miðað við stöðuna þann 1. júlí síðastliðinn þá er fjárhæðin með dráttarvöxtum 3,1 milljarður.

„Það er mat stjórnenda að ekki sé ástæða til að breyta umræddri varúðarfærslu. Forsendan er sú að endanleg niðurstaða málaferlanna liggur ekki fyrir,“ segir í árshlutareikningnum en félagið hefur áfrýjað dómi Héraðsdóms til Landsréttar.