Hagnaður Orkuveitunnar á fyrstu níu mánuðum ársins var 7,9 milljarðar króna og rekstrarhagnaður 11,3 milljarðar króna, samkvæmt árshlutareikningi OR. Fyrstu níu mánuði ársins í fyrra var hagnaður tímabilsins 5,9 milljarðar. Rekstrarhagnaðurinn var hins vegar meiri þá, eða 12,7 milljarðar króna.

Rekstrartekjur hafa minnkað milli ára, voru 28,8 milljarðar á fyrstu níu mánuðum 2013 en tæpir 28 milljarðar nú. Í fréttatilkynningu frá Orkuveitunni segir að þessi lækkun sé tilkomin vegna lágs álverðs framan af árinu.

Eiginfjárhlutfall OR er nú 31,1% og hefur hækkað með niðurgreiðslu skulda undanfarin ár. Árið 2011 nam eiginfjárhlutfallið 18,7% eftir fyrstu níu mánuði ársins. Það hefur hækkað stöðugt frá þeim tíma.

Eignir Orkuveitusamstæðunnar námu 291 milljarði króna í lok september og höfðu hækkað um átta milljarða milli ára. Skuldirnar lækkuðu um rúmlega 1,6 milljarða milli ára og eru nú 200,5 milljarðar.

Rekstrarkostnaður hefur lækkað að raungildi frá árinu 2010 og tekjur vaxið um meira en 40% á þeim tíma. Aðgerðaáætlun Orkuveitunnar, sem kölluð hefur verið Planið, var innleidd árið 2011 og samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni hefur heildarárangur af áætluninni numið 48,2 milljörðum króna, en áætlunin átti að skila 51,3 milljörðum til ársloka 2016.