*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 15. nóvember 2013 11:08

Hagnaður OR var 6 milljarðar

Planið hefur skilað 40 milljörðum í bætt sjóðsstreymi.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur fyrstu níu mánuði ársins 2013 eftir skatta nam 6,0 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, EBIT, fyrstu níu mánuði ársins nam 12,8 milljörðum króna en var 11,0 milljarðar á sama tímabili í fyrra. Tekist hefur að greiða niður vaxtaberandi skuldir um 24,1 milljarð á árinu, segir í tilkynningu frá Orkuveitunni. Stjórnendur OR segja að Planið frá 2011 skili mun betri sjóðstöðu en áætlað var.

Samkvæmt afkomutilkynningu frá OR skilar sparnaður í rekstri Orkuveitunnar fyrirtækinu stöðugt batnandi afkomu. Raunkostnaður við reksturinn hefur lækkað um 1,6 milljarð króna frá árinu 2009 og í krónum talið nánast staðið í stað. 

Árshlutauppgjör samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur var samþykkt af stjórn í dag. Það er gert í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, IFRS.

Framlegð reksturs samstæðu Orkuveitunnar (EBITDA) fyrstu níu mánuði ársins nam 19,0 milljörðum króna en var 17,8 milljarðar á sama tímabili 2012. Ytri áhrifaþættir á afkomu fyrirtækisins – gengi, álverð og vaxtastig – hafa þróast hver með sínum hætti. Gengisþróun hefur verið hagstæð fyrir Orkuveituna en álverð er mjög lágt og hefur það neikvæð áhrif á fjármagnsliði uppgjörsins. 

Heildarárangur Plansins frá upphafi, í mars 2011, til septemberloka 2013 nam 35,3 milljörðum króna. Allir þættir þessu voru þá á áætlun nema sala eigna. Síðan þá hefur verið gengið frá sölu á höfuðstöðvum Orkuveitunnar fyrir 5,1 milljarð. Með þeim viðskiptum hefur Planið þegar skilað 40,4 milljörðum króna af þeim 51,3 sem það á að skila í bættu sjóðstreymi í heild til ársloka 2016.