Rekstrarniðurstaða þekkingarfyrirtækisins ORF Líftækni fyrir árið 2017 var kynnt á aðalfundi félagsins í gær. Starfsemi ORF Líftækni skilaði hagnaði fjórða árið í röð og tekjuvöxtur ársins nam um 32%.

Heildartekjur rufu í fyrsta skipti milljarð króna og námu 1.239 milljónum króna samanborið við 935 milljónir árið 2016. Hagnaður ársins nam 38 milljónum króna samanborið við 26 milljónir árið 2016. „Við teljum síðasta ár hafa gengið heilt yfir mjög vel enda er tekjuvöxtur fyrirtækisins að aukast á milli ára“ segir Frosti Ólafsson, forstjóri ORF Líftækni.

„Þrátt fyrir krefjandi rekstraraðstæður fyrir útflutningsfyrirtæki þá náðum við að vaxa um þriðjung og auka rekstrarhagnað um 7%. Við höfum fjárfest mikið í markaðsstarfi, þróun og innviðum á undanförnum misserum og teljum okkur vel í stakk búin til að skapa áframhaldandi vöxt hjá fyrirtækinu“.

Fluttu í nýjar höfuðstöðvar

ORF Líftækni flutti í nýjar höfuðstöðvar á síðasta ári sem eru sérsniðnar að starfsemi fyrirtækisins. Helsti tekjugrunnur fyrirtækisins er BIOEFFECT húðvörulínan, sem hefur notið vaxandi velgengni bæði á íslenska markaðnum og erlendum mörkuðum undanfarin ár segir í fréttatilkynningu félagsins.

Meðal helstu áfanga í rekstri BIOEFFECT má nefna opnun á BIOEFFECT verslun innan lífsstílsverslunarinnar Aurum í Bankastræti, nýju vöruna EGF+2A Daily Treatment, opnun flaggskipsverslunar í Le Bon Marché í París, þekktasta vöruhúsi Frakklands, markaðssókn á smávörumarkað innan Bandaríkjanna og Marie Claire Prix d´Excellence verðlaunin fyrir 30 Day Treatment sem hafa verið nefnd Óskarsverðlaun snyrtivörugeirans.

Yfir 400 milljóna hlutafjáraukning

Samhliða uppbyggingu BIOEFFECT vörumerkisins hefur ORF Líftækni fjárfest í framgangi annarra þróunarverkefna sem byggja á próteinframleiðslukerfi fyrirtækisins. „Við fórum í hlutafjáraukningu um mitt síðasta ár til að standa undir þeim fjárfestingum sem vextinum fylgja“ segir Frosti.

„Útboðið var takmarkað við núverandi hluthafa og það er ánægjulegt að segja frá því að eftirspurn eftir hlutum var umtalsvert umfram þá hluti sem boðnir voru út. Þá fékk fyrirtækið langtímalán í gegnum Arion Banka og European Investment Fund sem nýtt verður til þróunarstarfs og í aukna vélvæðingu við framleiðslu.

Samanlegt er þessi fjármögnun yfir fjögur hundruð milljónir, þ.e. hlutafjáraukningin og langtímalánið. Við horfum björtum augum til framtíðarinnar og vonumst til að geta lagt enn meira af mörkum við aukningu á útflutningi Íslendinga á þekkingartengdum vörum.“

Þróuðu prótein í byggi

ORF Líftækni er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í plöntulíftækni að því er segir í tilkynningu fyrirtækisins. Fyrirtækið framleiðir sérvirk prótein sem notuð eru sem innihaldsefni í BIOEFFECT húðvörulínu fyrirtækisins, seld til læknisfræðilegra rannsókna og nýtt í önnur þróunarverkefni.

ORF Líftækni hefur þróað tækni til að framleiða slík prótein í byggi, en aðferðin er afrakstur tveggja áratuga vísinda- og þróunarstarfs. BIOEFFECT vörurnar eru þróaðar og framleiddar af ORF Líftækni. Vörurnar hafa fengið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir virkni og gæði og eru seldar í um 30 löndum um allan heim.