Origo hagnaðist um 424,5 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi sem er 99,1% aukning frá sama tíma fyrir ári þegar hagnaðurinn nam ríflega 213,2 milljónum króna. Tekjur félagsins jukust um ríflega fimmtung á milli ára, úr tæplega 3,6 milljörðum í 4,3 milljarða, meðan heildarrekstrarkostnaður jókst um 21,8%, úr tæplega 3,5 milljörðum í 4,2 milljarða króna.

Að teknu tilliti til fjármagnsgjalda og tekjuskatts varð neikvæður viðsnúningur á rekstrarhagnaði félagsins, sem fór úr 63,8 milljónum króna hagnað í 35,5 milljóna króna tap. En þar sem þýðingarmunur vegna starfsemi dóttur- og hlutdeildarfélaga, þrefaldaðist milli ára, úr 149,4 milljónum króna í tæplega 460 milljónir króna, tvöfaldaðist heildarhagnaðurinn eins og áður segir.

Eigið fé félagsins jókst um 5,7%, úr 6,8 milljörðum króna í 7,2 milljarða króna, meðan skuldirnar nánast stóðu í stað í tæplega 5,1 milljarði. Þar með jukust heildareignirnar um 3,3%, úr 11,9 milljörðum í 12,3 milljarða, meðan eiginfjárhlutfallið jókst úr 57,4% í 58,7%.

Finnur Oddsson forstjóri Origo segir að þrátt fyrir töluverða röskun á daglegri starfsemi vegna Covid-19, hafi rekstur Origo á fjórðungnum gengið vel.

„Tekjur Origo numu 4.277 mkr og jukust um 20% miðað við sama tímabil í fyrra. EBITDA var 237 mkr en þar höfum við tekið tillit til niðurfærslu viðskiptakrafna vegna mikillar efnahagslegrar óvissu sem stafar af veirufaraldrinum,“ segir Finnur.

„Heildarhagnaður var 425 mkr og tvöfaldast á milli ára, en þessi ágæta niðurstaða er að stórum hluta til komin vegna gengishreyfinga sem hafa jákvæð áhrif á þýðingarmun vegna starfsemi dóttur- og hlutdeildarfélaga, einkum Tempo. Fjárhagsstaða Origo er því áfram mjög sterk og félagið vel í stakk búið til að kljást við rekstraróvissu og mögulega ágjöf á næstu mánuðum og misserum.“