Hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur á þriðja ársfjórðungi nam 4,3 milljörðum króna, en á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 833 milljónum króna.

Rekstrartekjurnar voru svipaðar og á sama tíma í fyrra, eða tæpir 9 milljarðar en í fyrra námu þær 8,35 milljörðum. Rekstrarhagnaðurinn fyrir afskriftir (EBITDA) nam 5,4 milljörðum í ár en 5,2 milljörðum í fyrra, en með afskriftum var rekstrarhagnaðurinn (EBIT) kominn í 3,1 milljarð meðan hann var 2,8 milljarðar í fyrra.

Styrking krónunnar skilaði 3,8 milljörðum

Það sem mestu munar í endanlega hagnaðinum milli áranna var í fjármunatekjum sem nú voru jákvæðar um 3,2 milljarða í stað þess að vera neikvæðar um 1,86 milljarða líkt og á sama tímabili í fyrra. Kom það til vegna 3,8 milljarða gangvirðisbreytinga vegna styrkingar krónunnar.

Ef horft er til fyrstu 9 mánuða ársins nam hagnaðurinn 9,4 milljörðum króna meðan á sama tímabili í fyrra nam hann 3,1 milljarði króna. Rekstrartekjurnar hækkuðu um milljarð eða úr 28.951 milljónum króna í 29.921 milljón króna. Frá áramótum hafa nettóskuldir Orkuveitunnar lækkað um 17,8 milljarða króna.