Hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur (OR) nam 5,6 milljörðum króna á síðasta ári, samanborið við 6,9 milljarða króna árið 2019. Framlegð rekstursins (EBITDA) og rekstrarhagnaður (EBIT) voru þó meiri á síðasta ári en árið 2019 en fjármagnsgjöld jukust um tæpa tvö milljarða króna milli ára.

Rekstrartekjur félagsins námu 48,6 milljörðum króna, sem er um 4,4% aukning frá fyrra ári. Tekjuaukningin má aðallega rekja til aukinnar sölu á heitu vatni, að því er segir í fréttatilkynningu OR, samhliða birtingu ársreiknings. Köld tíð og fjölgun húsa sem tengd eru hitaveitu ollu um 10% vexti heitavatnsnotkunar milli áranna 2019 og 2020, sem er fáheyrð aukning á einu ári.

Heildareignir OR námu 394 milljörðum króna í árslok 2020, samanborið við 370 milljarða árið áður. Skuldir félagsins hækkuðu um 9,8% milli ára, úr ríflega 188 milljörðum króna í 206 milljarða. Eigið fé OR nam 188 milljörðum króna í árslok og því var eiginfjárhlutfall 47,8%, samanborið við 49,3% árið áður.

Í samstæðu OR eru, auk móðurfélagsins; Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur, sem rekur Ljósleiðarann, og nú í fyrsta skipti Carbfix, nýtt þróunarfélag um lausnir í loftslagsmálum.

Nauðsynlegur undirbúningur ýmissa framkvæmda tafðist á árinu 2020, að einhverju leyti vegna faraldursins. Fjárfestingar samstæðunnar 2020 námu 16,8 milljörðum króna en voru 19,4 milljarðar árið 2019. Áætlanir gera ráð fyrir auknum fjárfestingum á þessu ári.

„Fjárhagsleg og menningarleg endurskipulagning samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur undanfarinn áratug hefur skilað okkur því að nú getum við lagt lóð á vogarskálarnar þegar kemur að viðspyrnu gegn kórónuveirunni og áhrifum hennar á samfélagið,“ er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR, í fréttatilkynningu.

„Reksturinn er traustur, afkoma fyrirsjáanleg og við höfum getað lækkað gjaldskrár vatnsveitu og rafveitu umtalsvert síðustu ár. Gjöld fyrir hitaveitu og fráveitu hafa nánast fylgt verðlagi á sama tíma.

Það skiptir líka máli, nú þegar ríki og sveitarfélög eru að glíma við samdrátt vegna kórónuveirunnar, að verulega hefur dregið úr ábyrgðum sveitarfélaganna sem eiga Orkuveituna á lánum hennar. Síðasta áratuginn hefur hlutfall lána með slíkum ábyrgðum minnkað úr rúmum 90% í 46%. Við stefnum að því að hætta alveg lántöku með ábyrgðum eigenda. Þá hefur OR nú greitt að fullu neyðarlán sem eigendur veittu fyrirtækinu árið 2011 að fjárhæð 12 milljarðar króna.

Skattaspor samstæðunnar fyrir síðasta ár hefur verið reiknað. Það nam 8,8 milljörðum króna. Við erum stolt af rekstri sem skilar slíkum fjárhæðum til samfélagsins,“ segir Bjarni.