Össur hagnaðist um 9 milljónir Bandaríkjadala eða sem nemur 1,2 milljörðum íslenskra króna á fyrsta ársfjórðungi 2016. Hagnaður fyrirtækisins stendur í stað milli ára í dollurum talið. Þetta kemur fram í uppgjöri fyrirtækisins fyrir fyrsta ársfjórðung sem birt var í gærkvöldi.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 19 milljónum Bandaríkjadala eða 2,4 milljörðum íslenskra króna og sala nam 114 milljónum Bandaríkjadala eða 14,7 milljörðum íslenskra króna og jókst um 3% frá fyrra ári.

Tölurnar taka mið kaupum Össurs á Touch Bionics fyrir 39 milljónir Bandaríkjadala, 5,1 milljarð íslenskra króna, sem samþykkt voru 11. apríl sl.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að rekstraráætlun fyrir árið 2016 sé óbreytt, en bætt sé við áætlun fyrir söluvöxt í heild vegna kaupanna á Touch Bionics. Gert sé ráð fyrir að söluvöxtur verði um 7-9%, innri söluvöxtur 3-5% og aðlöguð EBITDA framlegð á bilinu 20-21%.

Í yfirlýsingu félagsins er haft eftir Jóni Sigurðsyni forstjóra að söluvöxtur hafi verið í takti við væntingar. Fyrsti fjórðungur ársins sé ávallt sá slakasti. Söluvöxtur í Ameríku hafi verið mjög góður, bæði í spelkum og stuðningsvörum sem og stoðtækjum,  þar sem nýjasti gervifóturinn, Pro-Flex®, fékk góðar viðtökur. Söluvöxtur í EMEA hafi verið óvenju lágur en félagið reikni með góðum vexti þar það sem eftir er árs. Margar spennandi vörur sé væntanlegar og nýjar vörur hafa fengið góðar viðtökur. Með kaupunum á Touch Bionics hafi félagið farið inn á markaðinn fyrir gervihendur, en fyrirtækið er fremst í heiminum í þróun og framleiðslu á gervihöndum.