Össur hagnaðist um 1 milljarð króna á síðasta ári samanborið við 8,5 milljarða króna hagnað árið 2019 og dróst því saman um 88% á milli ára.

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam um 500 milljónum króna samanborið við 2,2 milljarða króna hagnað á sama tímabili fyrir ári. „COVID-19 hefur haft umtalsverð áhrif á sölu, mest í upphafi faraldursins, en á síðustu mánuðum hefur salan verið að færast í eðlilegra horf, þó að enn gæti áhrifa á stórum mörkuðum,“ segir í uppgjörstilkynningu Össurar.

Sölusamdráttur Össurar á síðasta ári nam 8%, en félagið velti 85 milljörðum íslenskra króna á síðasta ári. Sölusamdráttur nam 8% í staðbundinni mynt og innri vöxtur var neikvæður um 4% á ársfjórðungnum

Á fjórða ársfjórðungi gekk Össur frá sölu á fyrirtækjum, sem aðallega hafa selt spelkur og stuðningsvörur í Bandaríkjunum, með alls 3 milljarða íslenskra króna í ársveltu en á sama tímabili var gengið frá kaupum á fyrirtækjum með alls 5 milljarðar íslenskra króna í ársveltu.

Jón Sigurðsson, forstjóri:

“Við erum sátt með rekstrarniðurstöðu fyrirtækisins á þessu fordæmalausa ári 2020. Salan hefur verið að aukast og sjáum við jákvæðan innri vöxt í sölu stoðtækja á síðasta fjórðungi ársins. Sjóðsstreymi var sterkt á árinu þar sem áhersla var lögð á stjórnun veltufjár og fjárfestinga. Ég er sannfærður um að COVID-19 faraldurinn muni ekki leiða til breytinga á eftirspurn eftir okkar vörum og þjónustu til lengri tíma litið. Til að einfalda rekstur í spelkum og stuðningsvörum var ákveðið að selja hluta starfseminnar á árinu. Einnig var gengið frá kaupum á fyrirtækjum sem styrkja stöðu Össurar á lykilmörkuðum. Ég vill nýta tækifærið og þakka starfsmönnum okkar og viðskiptavinum fyrir sveigjanleika, góðan liðsanda og framlag þeirra á þessu krefjandi ári.“