Hagnaður Össurar jókst um 165% á þriðja ársfjórðungi í samanburði við sama tímabili í fyrra. Alls nam hann 11 milljónum dala á ársfjórðungnum, eða 11% af sölu. Söluvöxtur félagsins var 12% og nam heildarsala 101 milljón dala, samanborið við 87 milljónir á sama tímabili í fyrra.

EBITDA-hagnaður nam 21 milljón dala, eða 21% af sölu, samkvæmt tilkynningu félagsins til Kauphallar.

Jón Sigurðsson, forstjóri félagsins, segir í tilkynningu: "Salan á þriðja ársfjórðungi var mjög góð og við erum ánægð með frammistöðuna, enda sýndu öll landsvæði og vörumarkaðir vöxt. Gott og stöðugt framboð á nýjum vörum er mikilvægt fyrir vöxt félagsins og þær vörur sem komu á markað á þessu ári og því síðasta áttu stóran þátt í þessari velgengni. Á ársfjórðungnum kynntum við enn eina vöruna í Bionic vörulínu félagsins, SYMBIONIC LEG, sem er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Varan sameinar eiginleika RHEO KNEE og PROPRIO FOOT og veitir einstaka virkni fyrir þá sem eru aflimaðir fyrir ofan hné. Þessi nýja viðbót í Bionic vörulínunni staðfestir forystu okkar í rafeindastýrðum stoðtækjum með gervigreind."

Tilkynning Össurar .