*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 26. apríl 2018 09:19

Hagnaður Össurar stendur í stað

Össur skilaði 10 milljóna dala hagnaði, eða einum milljarði íslenskra króna á 1. ársfjórðungi sem er sama og fyrir ári.

Ritstjórn
Jón Sigurðsson er forstjóri Össurar
Eva Björk Ægisdóttir

Sala fyrstu þrjá mánuði ársins 2018 nam 142 milljónum Bandaríkjadala, eða 14 milljörðum íslenskra króna. Það samsvarar 8% vexti og 1% innri vexti, en hagnaðurinn var um 7% af sölunni. Innri vöxtur í stoðtækjarekstri var 4% en sala í spelkum og stuðningsvörum dróst saman um 1%.

Tekjur félagsins fyrir vexti, skatta og afskriftir, það er EBITDA félagsins, nam 20 milljónum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 2 milljörðum íslenskra króna, eða 14% af sölu. Gengisbreytingar höfðu einnig neikvæð áhrif á rekstrarframlegð félagsins eða um 0,5 prósentustig.

Greiddu út 900 milljóna arð

Í mars 2018 greiddi Össur út arð sem samsvarar 9 milljónum Bandaríkjadala, eða 900 milljónum íslenskra króna. Það gerir um 16% af hagnaði félagsins árið 2017. Félagið keypti einnig eigin bréf fyrir um 13 milljónir Bandaríkjadala, eða 1,3 milljarða íslenskra króna.

Í mars 2018 gekk Össur frá nýjum lánasamningi við Nordea og Danske Bank. Nýja fjármögnunin endurspeglar sterka fjárhagsstöðu Össurar og framtíðarhorfur, segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Það er sagt birtast í lægra vaxtaálagi og auknum sveigjanleika í rekstri.

Góður söluvöxtum í Asíu

Jón Sigurðsson, forstjóri segir árið byrja fremur rólega hjá fyrirtækinu, enda sé hann „ávallt sá slakasti hjá okkur þegar kemur að sölu og arðsemi. Á jákvæðum nótum þá hélt stoðtækjareksturinn áfram að vaxa með hátæknivörur félagsins í fararbroddi og við sjáum áfram góðan söluvöxt í Asíu,“ segir Jón.

„Sala á spelkum og stuðningsvörum fór rólega af stað en við væntum þess að salan verði betri það sem eftir lifir árs, með stuðningi vara sem við kynntum nýlega til leiks. Hægur söluvöxtur og fjárfestingar í rannsóknar- og þróunarverkefnum mótuðu framlegðina í fjórðungnum.”

Stikkorð: Jón Sigurðsson Össur sala stoðtæki