Stoðtækjafyrirtækið Össur, sem nú er skráð á danskan markað, hagnaðist um 15 milljónir Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi, sem samsvarar um 2 milljörðum íslenskra króna, en það er aukning upp á 2,5% milli ára.

Tekjurnar jukust lítillega milli ára á tímabilinu, eða um 2,4%, úr 168 milljónum dala í 172 milljónir dala. Viðskiptablaðið sagði frá því fyrr í haust að sala fyrirtækisins væri óðum farin að nálgast fyrra horf eftir mikinn samdrátt í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirufaraldursins.

Söluvöxtur fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi í staðbundinni mynt nam 1% meðan innri vöxtur hans var neikvæður um 5%, sem þýðir að samdráttur hefur verið í sölu þess hluta samsteypunnar sem ekki kom til vegna yfirtöku eða kaupa á öðrum fyrirtækjum. Innri vöxturinn var neikvæður um 4% á stoðtækjum og 7% á spelkum og stuðningsvörum.

43 milljarðar í handbært fé og ódregnar lánalínur

Rekstrarkostnaður dróst saman milli ára um 5,7%, úr 87 milljónum dala í 82 milljónir dala. EBITDA hagnaður Össurar á þriðja ársfjórðungi jókst um 12,5% milli ára, úr 32 milljónum dala í 36 milljónir dala, eða sem samsvarar 5 milljörðum íslenskra króna, sem er 21% af sölu tímabilsins.

Rekstrarhagnaðurinn (EBIT) jókst svo um nærri fimmtung, 19%, úr 21 milljón í 25 milljónir króna. Handbært fé auk ódreginna lánalína félagsins nam 313 milljónum Bandaríkjadala í lok júní, eða sem samsvarar 43 milljörðum íslenskra króna.

Félagið gekk frá sölu á fyrirtækinu Gibaud í Frakklandi til Innothera þann 30. september, en sú sala nam 51 milljónum dala árið 2019 eða 7 milljörðum íslenskra króna. Fjárhagsáætlun fyrir seinni helming ársins 2020 er óbreytt eða 0% til -8% neikvæður innri vöxtur. Miðað við núverandi stöðu, þá er niðurstaða í kringum miðpunkt bilsins líklegasta sviðsmyndin.

Yfir 90% samdráttur hagnaðar það sem af er ári

Ef horft er til fyrstu níu mánaða ársins, þá dróst hagnaður félagsins saman um 92,2%, úr 72 milljónum dala í 18 milljónir dala. Tekjurnar drógust saman á tímabilinu um 9,3%, meðan rekstrargjöldin minnkuðu um 2,4%, úr 254 milljónum í 248 milljónir.

Þar með minnkaði EBITDA hagnaður félagsins um þriðjung, úr 104 milljónum dala í 69 milljónir dala meðan rekstrarhagnaðurinn (EBIT) dróst saman um þrjá fjórðu, úr 72% í 18%.

Eigið fé félagsins dróst saman um 2,1% á þessu níu mánaða tímabili, úr 569 milljónum dala í 557 milljónir dala, meðan skuldirnar drógust saman um 1,8%, úr 141 milljón dala í ríflega 138 milljónir dala. Þar með jukust eignir félagsins um 5,2%, úr 1.090 milljónir dala í 1.148 milljónir dala, og þar með lækkaði eiginfjárhlutfallið úr 52,2% í 48,5%.

„Frá byrjun apríl 2020 hefur sala Össurar verið að aukast á öllum helstu viðskiptamörkuðum félagsins og var á bilinu 90-100% af sölu síðasta árs í þriðja ársfjórðungi. Á nokkrum mörkuðum í Asíu og Evrópu erum við einnig að sjá sölu vegna uppsafnaðrar eftirspurnar,“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.

„Þrátt fyrir að sölutölur sýni greinileg batamerki er enn óljóst hversu lengi áhrif COVID-19 muni vara á okkar helstu mörkuðum. Ég er sannfærður um að faraldurinn muni ekki leiða til breytinga á eftirspurn eftir vörum okkar og þjónustu til lengri tíma litið. Aðhald í breytilegum kostnaði skilaði sér í góðum rekstrarhagnaði þrátt fyrir neikvæð áhrif á sölu. Við erum einnig ánægð með hafa gengið frá sölunni á Gibaud í Frakklandi til Innothera í lok september.“