Hagnaður stoðstækjafyrirtækisins Össurar jókst um 96% milli ára. Hagnaðurinn nam 11 milljónum Bandaríkjadala og 9% af sölu, samanborið við 6 milljónir dala og 6% af sölu á fyrsta ársfjórðungi 2013. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá félaginu.

Sala nam 121 milljón Bandaríkjadala, samanborið við 97 milljónir dala á sama tímabili 2013. Söluvöxtur var 24%, þar af 6% innri vöxtur, hvortveggja mælt í staðbundinni mynt. Sala á spelkum og stuðningsvörum jókst um 28%, þar af 2% innri vöxtur, hvort tveggja mælt í staðbundinni mynt. Sala á stoðtækjum jókst um 19%, þar af 12% innri vöxtur, hvort tveggja mælt í staðbundinni mynt.

"Niðurstöður fyrsta ársfjórðungs eru í takt við okkar væntingar. Við sjáum enn einn ársfjórðunginn þar sem arðsemin er mjög góð og rekstrarhagnaður tvöfaldast á milli ára. Aðhaldsaðgerðir sem við fórum í á síðasta ári og endurhönnun á ferlum hafa jákvæð áhrif, en einnig er  ánægjulegt að sjá að markaðsskilyrði á stoðtækjamarkaðnum í Bandaríkjunum er að þróast í rétta átt. Sölu vöxtur í EMEA heldur áfram að vera stöðugur. Í byrjun april framlengdum við lánasamning félagsins um þrjú ár, eða fram til ársins 2019 og endurspegla lánakjörin sterka fjárhagslega stöðu Össurar og góðar framtíðarhorfur," segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar í tilkynningu vegna uppgjörsins.