Hagnaður Össurar jókst um 26% milli ára á þriðja ársfjórðungi í ár og nam 16 milljónum Bandaríkjadala (andvirði um 1,9 milljarða króna) eða 13% af sölu, samanborið við 13 milljónir Bandaríkjadala og 12% af sölu á þriðja ársfjórðungi 2013. Sala nam 127 milljónum Bandaríkjadala, samanborið við 105 milljónir Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi 2013. Söluvöxtur var 21%, þar af 6% innri vöxtur, hvort tveggja mælt í staðbundinni mynt, að því er segir í tilkynningu til kauphallar.

Framlegð nam 81 milljón Bandaríkjadala eða 64% af sölu, samanborið við 65 milljónir Bandaríkjadala og 62% af sölu á þriðja ársfjórðungi 2013. EBITDA jókst um 30% og nam 29 milljónum Bandaríkjadala sem er 23% af sölu, samanborið við 22 milljónir Bandaríkjadala og 21% af sölu á þriðja ársfjórðungi 2013. Handbært fé frá rekstri nam 33 milljónum Bandaríkjadala eða 26% af sölu, samanborið við 24 milljónir Bandaríkjadala og 23% af sölu á þriðja ársfjórðungi 2013.

Sala á spelkum og stuðningsvörum jókst um 19% samanborið við þriðja ársfjórðung 2013, þar af var innri vöxtur 0%. Sala á stoðtækjum jókst um 23% samanborið við þriðja ársfjórðung 2013, þar af var innri vöxtur 15%, hvort tveggja mælt í staðbundinni mynt.

Í tilkynningunni segir að vegna mikils söluvaxtar og góðrar arðsemi á fjórðungnum hafi félagið endurskoðað áætlun fyrir árið 2014. Söluvöxtur í staðbundinni mynt verði á bilinu 18%-19%, en fyrri áætlun gerði ráð fyrir 16%-18% vexti. EBITDA framlegð sem hlutfall af sölu verði 20%-21%, en fyrri áætlun gerði ráð fyrir 19%-20%. Áætlanir um fjárfestingu eru óbreyttar og gera ráð fyrir 2,5%-3,5% af sölu.

Í tilkynningunni er haft eftir Jóni Sigurðssyni forstjóra að hann sé mjög ánægður með góða arðsemi á fjórðungnum og að sjóðstreymið sé það sterkasta sem fyrirtækið hafi verið með hingað til.

Hlutabréf Össurar hækkuðu um 8,02% í viðskiptum í kauphöll í dag, en velta með bréfin nam 41 milljón króna.