Kínverska fiskvinnslu- og sjávarútvegsfyrirtækið Pacific Andes International Holding hagnaðist um 2,75 milljarða Hong Kong-dali, jafnvirði 43 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári. Rekstrarári fyrirtækisins lýkur í septemberlok á hverju ári. Þetta er 18,6% aukning á milli ára. Þá námu tekjur 14,25 milljörðum dala sem er rúm 24% aukning á milli ára.

Pacific Andes og fjárfestingarsjóðurinn Klonastra, sem er með heimilisfesti á Kýpur, keyptu saman fyrirtæki Icelandic Group í Frakklandi og Þýskalandi síðastliðið vor. Kaupverð hefur ekki verið gefið upp.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu er haft eftir forstjóranum Ng Joo Siang að hann sé bjartsýnn á horfur þessa árs þótt menn verði að hafa vara á sér, hann búist samt við að fyrirtækjakaup Pacific Andes muni styðja við vöxtinn.

Reka risafiskvinnslu á hafi úti

Pacific Andes hefur sætt gagnrýni fyrir ofveiði á makríl og öðrum fisktegundum í S-Kyrrahafi upp á síðkastið. Fyrirtækið varði háum fjárhæðum árið 2008 í að breyta gömlu 50 þúsund tonna olíuskipi í einskonar fiskvinnslu. Skipið heitir Lafayette og siglir undir rússneskum fána. Það er með sogútbúnað sem gerir því kleift að sjúga fisk upp úr öðrum togurum og frysta hann í blokkum um borð.