Hagnaður bandaríska lyfjafyrirtækisins Pfizer nam 2,3 milljörðum dala á fyrsta ársfjórðungi eða sem svarar til um 257 milljörðum íslenskra króna. Á sama tíma í fyrra nam hagnaður fyrirtækisins 2,7 milljörðum dala. Tekjur drógust sömuleiðis saman á milli ára. Þær námu 11,3 milljörðum dala á fyrsta ársfjórðungi á þessu ári sem var 9% samdráttur á milli ára.

Pfizer reynir þessa dagana að taka breska lyfjarisann AstraZenece yfir. Tilboðið hljóðar upp á eina 63 milljarða punda. Stjórn AstraZenece með forstjórann Pascal Soriot, vísaði því hins vegar út af borðinu á þeim forsendum að það væri of lágt. Í umfjöllun breska dagblaðsins Financial Times segir að Bretar óttist ekki síst að gangi kaupin í gegn muni Pfizer draga saman seglin í Bretlandi og segja upp starfsfólki.