Rammagerðin hagnaðist um 9,2 milljónir íslenskra króna árið 2015, samkvæmt ársreikningi félagsins. Hagnaður hefur þar með dregist saman milli ára, en fyrirtækið hagnaðist um 13,2 milljónir í fyrra Rekstrarhagnaður félagsins nam 12,45 milljónum fyrir afskriftir, en hann nam 19,2 milljónum árið áður.

Samkvæmt ársreikningi námu eignir félagsins samtals 63 milljónum króna. Þær hafa aukist um rúmlega 9 milljónir milli ára. Fastafjármunirnir voru alls að upphæð 5,56 milljónir króna, á meðan veltufjármunirnir voru að upphæð 57,5 milljónir.

Eigið fé félagsins nam alls 36,6 milljónum króna árið 2015 og voru skammtímaskuldir alls að upphæð 26,4 milljónir króna. Eigið fé og skuldir saman námu því rúmum 63 milljónum króna.

Handbært fé frá rekstri var í árslok 2,45 milljónir. Fyrirtækið keypti varanlega rekstrarfjármuni fyrir 4,6 milljónir á árinu og greiddi ekkert í arð til hluthafa. Félagið er í fullri eigu BH Holding ehf.