Hagnaður RARIK á árinu 2012 nam 1.541 milljónum króna, en var 1.014 milljónir króna árið 2011. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 4.351 milljónir króna eða 38,1% af veltu tímabilsins og samanborið við 32,7% á árinu 2011. Handbært fé frá rekstri var 3.257 milljónir króna.

Velta nam 11,4 milljörðum króna, en var 10,8 milljarðar árið 2011. Eignir RARIK hækkuðu töluvert milli ára og fóru úr 37,3 milljörðum króna í 44,6 milljarða króna. Skuldir hækkuðu einnig, en mun minna þó en sem nam eignaaukningunni. Skuldir hækkuðu úr 17,9 milljörðum í 19,1 milljarð króna og hækkaði eigið fé fyrirtækisins því úr 19,3 milljörðum króna í 25,5 milljarða. Eiginfjárhlutfall í árslok 2012 var því 57,2% samanborið við 51,9% í árslok 2011.

Í tilkynningu frá félaginu segir að horfur í rekstri RARIK á árinu 2013 séu sambærilegar og á liðnu ári, en afkoman ráðist hins vegar af almennri þróun efnahagsmála, verðlagsþróun og gengi krónunnar. Gert er ráð fyrir sambærilegum fjárfestingum í dreifikerfum og á fyrra ári. Til viðbótar hefðbundinni endurnýjun í dreifikerfinu verður haldið áfram vinnu við hitaveitu til Skagastrandar og unnið að rannsóknum vegna hitaveitu til Hafnar. Á síðasta ári var gefinn út skuldabréfaflokkur að upphæð 2.000 milljónir, en ákveðið að selja ekki nema helming þeirrar upphæðar. Ekki hefur verið ákveðið hvort fyrirtækið nýti sér heimild til sölu á öllum skuldabréfaflokknum á þessu ári.