Á nýsamþykktum árshlutareikning Regins hf. fyrir 1. janúar til 30. júní 2017 kemur fram að hagnaður félagsins lækkaði um 24% frá sama tíma í fyrra eftir tekjuskatt og nam hann 1.512 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir, EBITDA, var 2.083 m.kr., sem er 2% lækkun frá fyrra ári. Hagnaður á hlut fyrir tímabilið er 0,97 en var 1,34 fyrir sama tímabil í fyrra, en heildarfjöldi hluthafa við lok tímabilsins var 762.

Rrekstrartekjur félagsins námu 3.332 milljónum króna, en vöxtur leigutekna félagsins fyrir tímabilið jókst um 5% miðað við sama tíma fyrir ári. Bókfært virði fjárfestingareigna Regins í lok tímabilsins nemur 86.523 milljónum króna, en matsbreyting á tímabilinu var 1.237 m.kr.

Mikil áhrif af breytingum í Smáralind

Handbært fé frá rekstri nam 1.080 milljónum króna. Vaxtaberandi skuldir voru 50.686 millljónir króna í lok tímabilsins samanborið við 49.499 milljónir króa í árslok 2016. Eiginfjárhlutfall er 35%. Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að mikil áhrif hafi orðið af umbreytingum sem eru yfirstandandi í Smáralind, stærstu eign félagsins.

Áhrifin felast í tímabundið lægri tekjum og hærri rekstrarkostnaði á um fjórðungi leigjanlegra fermetra í Smáralind. Tekjur í Smáralind á 1H-17 eru 19% lægri en á sama tímabili 2016 sem er í samræmi við fyrri áætlanir.

95% útleiguhlutfall

Fjöldi fasteigna Regins í lok tímabilsins var 118 og heildarfermetrafjöldi þeirra eigna er um 313 þúsund. Útleiguhlutfall á safni Regins er um 95% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi. Fasteignasafn Regins er metið á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Safnið er metið í lok hvers árs í tengslum við gerð ársreiknings sem og í lok hvers uppgjörstímabils. Matsbreyting á fyrstu 6 mánuðum ársins nam 1.237 m.kr.

í tilkynningunni kemur fram að eins og fyrsti ársfjórðungurinn á árinu þá einkenndist annar ársfjórðungurinn af miklum umsvifum í tengslum við fjárfestingar vegna nýrra leigusamninga og þá sérstaklega í Smáralind. Nú sér fyrir endann á þeim miklu breytingum sem staðið hafa yfir í Smáralind. H&M mun opna flaggskipsverslun sína í glæsilegu 4.300 fermetra rými þann 26. ágúst næstkomandi og ný, stærri og endurbætt Zara verslun mun opna í lok október.

Í framhaldi af vel heppnuðu skuldabréfaútboði í maí sl. hafa óhagstæð lán sem og skammtímalán, að hluta, verið endurfjármögnuð segir jafnframt í tilkynningunni. Félagið mun á næstu misserum halda áfram þeirri vegferð að endurfjármagna lán félagsins séu markaðsaðstæður þannig að hagstæðari kjör bjóðist.

Keyptu og seldu lóðir

Á tímabilinu gerði Reginn samkomulag við GAMMA um sölu á hlut þess (50%) í félaginu 201 Miðbær ehf. sem er eigandi byggingarréttar á lóðum 03 og 04. Reginn á eftir viðskiptin byggingarrétt á rúmlega 14.000 m2 á Smárabyggðarsvæðinu.

Reginn skrifaði einnig undir samkomulag um einkaviðræður við félagið Austurhöfn ehf. um kaup félagsins á reit 5b á lóðinni Austurbakki 2 í miðborg Reykjavíkur. Um er að ræða 2.700 m2 af verslunar- og veitingarými sem er einstaklega vel staðsett á horni Geirsgötu og Austurhafnar.

Tilgangur viðskiptanna er ætlað að styrkja viðskiptahugmynd Regins á svæðinu til að tryggja m.a. rétta samsetningu og gæði í þessum verslunar- og þjónustukjarna. Áætlað er að rýmin verði afhent um mitt ár 2019. Fjárhagsleg áhrif eru óveruleg á fjárhag og afkomu Regins.

Stjórnendur félagsins telja að horfur í rekstri séu góðar og að ekki séu vísbendingar um annað en að áætlanir félagsins standist í öllum aðalatriðum. Spennandi tímar eru framundan í verslun og þjónustu á Íslandi með nýjum og breyttum áherslum. Félagið hefur lengi unnið að því að verslunarmiðstöðin Smáralind yrði í hringiðu þeirra miklu umbreytinga sem framundan eru í verslun og eru stjórnendur og starfsmenn ákaflega stoltir af þeim árangri sem náðst hefur.