Fasteignafélagið Reginn hagnaðist um 243 milljónir á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 137 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Þetta jafngildir 19 aurum á hlut nú samanborið við hagnað upp á 11 aura á hlut í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri Regins að rekstrartekjur námu 882 milljónum króna á tímabilinu borið saman við 848,6 milljónir króna í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 524 milljónum króna.

Vaxtaberandi skuldir Regins námu í lok mars 20.531 milljónum króna samanborið við 19.297 milljónir í lok fyrsta ársfjórðungs í fyrra. Fjárfestingareignir voru metnar á 32.790 milljónir króna og nam eiginfjárhlutfallið 33%.

Fram kemur í uppgjörinu að það sé gott og í samræmi við áætlanir. Í lok fyrsta ársfjórðungs átti Reginn 34 fasteignir. Heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins var 170 þúsund fermetrar og þar af voru 150 þúsund útleigjanlegir fermetrar. Útleiguhlutfall fasteignasafnsins var yfir 96%. Helstu eignir Regins eru verslunarmiðstöðin Smáralind í Kópavogi og Egilshöll í Grafarvogi.

Uppgjör Regins