Fasteignafélagið Reginn hf. skilaði 707 milljóna króna hagnaði á þriðja ársfjórðungi þessa árs, samanborið við 652 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra.

Rekstrartekjur jukust úr 1.417 milljónum króna í 1.717 milljónir á milli ára og rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu fjárfestingareigna jókst úr 940 milljónum í 1.171 milljón. Hins vegar voru áhrif matsbreytinga á rekstrarreikning fyrirtækisins minni á þriðja fjórðungi þessa árs en í fyrra og var rekstrarhagnaður eftir matsbreytingar 1.509 milljónir á þriðja fjórðungi þessa árs, en var 1.552 milljónir á sama tíma í fyrra. Hins vegar voru hrein fjármagnsgjöld ríflega 100 milljónum króna minni í ár en í fyrra.

Á fyrstu níu mánuðum ársins skilaði reginn 2.709 milljóna króna hagnaði, en á sama tíma árið 2015 nam hagnaður fyrstu níu mánaða ársins 1.866 milljónum króna.

Í septemberlok námu eignir félagsins 81,8 milljarði króna, skuldir voru 54 milljarðar, en þar var voru vaxtamerandi langtímaskuldir 44,7 milljarðar. Eigið fé nam 27,8 milljörðum.