Hagnaður Regins nam 1,1 milljarði króna á öðrum ársfjórðungi sem er margföldun frá sama tíma fyrir ári þegar hagnaðurinn nam 32 milljónum króna.

Jukust rekstrartekjur félagsins um 27% á milli ára, úr 1,9 milljörðum í ríflega 2,4 milljarða en á sama tíma jókst rekstrarkostnaður félagsins um 14%, úr samtals 703 milljónum í 802 milljónir króna. Að viðbættum 1,3 milljarða króna matshækkun fasteigna félagsins nam rekstrarhagnaðurinn því 2.943 milljónum króna.

Hrein fjármagnsgjöld félagsins jukust um 70% milli ára, úr 942 milljónum króna í 1,6 milljarða svo hagnaður félagsins fyrir tekjuskatt nam 1.341 milljón, en 1.062 eftir 279 milljóna króna skattgreiðslu.

Eigið fé félagsins jókst eilítið um ríflega 2 milljarða, í 44,1 milljarð en skuldirnar jukust úr tæplega 90,9 milljörðum í ríflega 95,7 milljarða. Fóru því heildareignir félagsins úr 132,9 milljörðum í 139,8 milljarða en eiginfjárhlutfallið lækkaði eilítið, eða úr 31,6% í 31,5%.

Ef horft er til fyrstu sex mánuða ársins saman sést að:

  • Rekstrartekjur námu 4.832 m.kr.
  • Vöxtur leigutekna frá fyrra ári var 29%.
  • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var 3.240 m.kr., sem er 36% hækkun frá fyrra ári.
  • Bókfært virði fjárfestingareigna í lok tímabils er 136.346. m.kr. Matsbreyting á tímabilinu var 2.181 m.kr. Fjárfestingar á tímabilinu voru 2.839 m.kr.
  • Hagnaður eftir tekjuskatt nam 2.117 m.kr. sem er um 42% hækkun frá fyrra ári.
  • Handbært fé frá rekstri nam 2.064 m.kr. Handbært fé í lok tímabilsins var 2.242 m.kr.
  • Vaxtaberandi skuldir voru 82.081 m.kr. í lok tímabilsins samanborið við 80.488 m.kr. í árslok 2018.
  • Eiginfjárhlutfall er 31,5%.
  • Hagnaður á hlut fyrir tímabilið er 1,16 en var 0,95 fyrir sama tímabil í fyrra.

Félagið segir frá því að umbreytingarferli Smáralindar sé lokið með góðum árangri og nú sé hlutfall alþjóðlegra verslana og veitingastaða í verslunarmiðstöðinni sé nú orðið 50% af verslunarfermetrum hennar.

Jafnframt fullyrðir félagið að verslanir við Hafnartorgið hafi fengið góðar móttökur í sumar og verslunarsvæðið hafi fært Reykjavík alþjóðlegan stórborgarsvip. Umferð um bílakjallarann hafi aukist með hverjum degi og auk þess að tenging muni koma við bílakjallara Hörpu sé von á aðgangsstýrðri hjólageymslu á næstu vikum þar. Rýmið við Austurhöfn verði svo afhent í byrjun árs 2020.