Fasteignafélagið Reitir hagnaðist um 2.458 milljónir króna á síðasta ári, en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Árið 2013 hagnaðist félagið um 7.670 milljónir króna.

Skýrist munurinn aðallega af því matsbreyting eigna, þar sem ætlað að er að færa bókfært verð eigna sem næst sannvirði, hækkar mun minna árið 2014 en 2013. Tekjufærslan nam 8,7 milljörðum árið 2013 en 1,9 milljarði árið 2014.

Tekjur félagsins námu 8.515 milljónum króna og jukust milli ára, en árið 2013 námu þær 8.168 milljónum króna. Þá nam rekstrarhagnaður ársins 5.984 milljónum króna, en hann var 5.869 milljónir ári fyrr. Virði fjárfestingareigna nam 101.010 milljónum króna.

Í árslok nam eigið fé félagsins 39.948 milljónum króna og jókst stórlega milli ára, en það nam 20.618 milljónum króna ári fyrr. Eiginfjárhlutfall var 39,1% samanborið við 20,4% árið 2013. Vaxtaberandi skuldir í árslok námu 55.204 milljónum króna, en voru 74.696 milljónir króna ári fyrr.

Fram kemur í tilkynningunni að stefnt sé að skráningu í kauphöll á fyrri hluta árs 2015.

„Rekstur Reita er stöðugur og var árið 2014 engin undantekning þar á. Vöxtur varð á tekjum umfram verðlagsþróun og er rekstrarhagnaður ágætur og í takti við áætlanir. Arðsemi tekjuberandi fjárfestingareigna var 6,5%. Árið var mikið framkvæmdaár með viðhaldi og endurbótum á fasteignum í tengslum við nýja leigusamninga. Verkefni á borð við nýtt Borgarbókasafn í Spönginni, endurnýjun skrifstofuhæðar Creditinfo og skólahúsnæðis Mímis-símenntunar, bæði að Höfðabakka 9, skýra að stórum hluta hækkun rekstrarkostnaðar fjárfestingareigna milli ára,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.

Breytingar á fasteignamati koma illa við félagið

Hann segir jafnframt að Þjóðskrá Íslands hafi gert breytingar á aðferðafræði við fasteignamat á árinu, og breytingin hafi komið illa við félagið þar sem fasteignamat eigna félagsins hafi hækkað um ríflega 20%.

„Áhrifa breytinganna mun gæta í afkomu ársins 2015 og enn frekar á árinu 2016. Áætluð heildarhækkun fasteignagjalda er um 200 milljónir króna. Við hjá Reitum lítum þannig á að hér sé um stórfellda hækkun skatta á atvinnulífið að ræða án þess að löggjafarvaldið hafi haft beina aðkomu að málinu,“ segir Guðjón.

Fjárhagslegur styrkur aukist verulega

„Eftir endurfjármögnun hefur fjárhagslegur styrkur samstæðunnar aukist verulega ásamt því sem fjármagnskostnaður lækkar umtalsvert. Gefur þessi staða samstæðunni betri möguleika en áður á að rækja hlutverk sitt, framfylgja stefnum sínum og áherslum.

Stjórn og stjórnendur félagsins telja að félagið sé nú tilbúið til skráningar í kauphöll og er stefnt að skráningu hluta- og skuldabréfa félagsins á fyrri hluta árs 2015,“ segir Guðjón að lokum.