*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 17. nóvember 2020 08:47

Hagnaður Reita jókst um 41% milli ára

Reitir högnuðust um 889 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi eftir matsbreytingu, en hagnaðurinn dróst saman um 16,3% fyrir hana.

Ritstjórn
Guðjón Auðunsson er forstjóri Reita.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Reita eftir matsbreytingu fasteigna jókst um 41,3% milli ára á þriðja ársfjórðungi, úr 629 milljónum fyrir ári í 889 milljónir króna í ár. Félagið tók jafnframt ákvörðun um það í gær að hækka útgáfuramma skuldabréfa félagsins úr allt að 70 milljörðum króna í allt að 100 milljarða króna.

Tekjur fasteignafélagsins drógust á sama tíma saman um 9,1%, úr tæplega 3 milljörðum króna í rétt tæplega 2,7 milljarða króna.
Rekstrarkostnaður jókst um 3,9% milli ára úr 1.059 milljónum í 1.100 milljónir króna, svo rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu dróst saman um 16,3%, úr tæplega 1,9 milljarði í 1,6 milljarða króna.

Hækkun á fasteignamati eigna félagsins var mun meiri á þriðja ársfjórðungi í ár en í fyrra eða rúmlega 1,3 milljarðar í stað 193 milljóna króna fyrir ári. Rekstrarhagnaður (EBIT) eftir matsbreytinguna var því 39,4% hærri í ár en í fyrra, eða 2,9 milljarðar í stað 2,1 milljarðs króna.

Neikvæð matsbreyting á fyrstu 9 mánuðum ársins

Eigið fé félagsins dróst saman á fyrstu níu mánuðum ársins um 4,6%, úr ríflega 47,6 milljörðum króna í tæplega 45,5 milljarða króna, meðan skuldirnar jukust um 2%, úr 104 milljörðum í 106,1 milljarð króna. Þar með drógust eignirnar saman um 0,1%, og námu 151,5 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið lækkaði úr 31,4% í 30,0%.

Tekjur félagsins fyrstu níu mánuði ársins voru 7,2% minni en á sama tíma fyrir ári, eða 8,1 milljarður króna í stað 8,8 milljarða, meðan rekstrargjöldin drógust saman um 3,4%, úr 2.996 í 2.895 milljónir króna.

Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu dróst því saman um 9,2%, úr tæplega 5,8 milljörðum í ríflega 5,2 milljarða. Matsbreytingin á árinu í ár var neikvæð um 787 milljónir króna meðan hún var jákvæð um nærri 2 milljarða á sama tíma fyrir ári.

Þar með dróst rekstrarhagnaðurinn (EBIT) um 42,6%, úr 7,8 milljörðum króna í tæplega 4,5 milljarða króna. NOI hlutfall félagsins, það er hlutfall leigutekna sem stendur eftir þegar búið er að draga frá rekstrarkostnað, lækkaði milli ára úr 62,5% í 56,8%.

„Afkoma þriðja ársfjórðungs 2020 er í samræmi við þær horfur sem kynntar voru í tengslum við hlutafjárútboð Reita í október sl. og felur uppgjörið ekki í sér breytingar á áætluðum áhrifum af Covid-19 á rekstur félagsins,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.

„Fréttir um að bóluefni, sem sýnir góða virkni gegn veirunni, sé á lokastigum prófana erlendis eru mjög jákvæðar og rénun faraldursins hérlendis eru sömuleiðis jákvæð tíðindi. Að óbreyttu eru því skilyrði að myndast fyrir öfluga jólaverslun innanlands. Viðsnúningur hagkerfisins mun hins vegar taka tíma og áhrifa Covid-19 á ferðaþjónustuna mun gæta áfram á árinu 2021 og jafnvel inn á árið 2022.

Góður gangur hefur verið í útleigu undanfarin misseri og nýting aukist, nýlega gerðu Reitir leigusamning við ISAVIA um ca. 2.000 m2 húsnæði í Dalshrauni í Hafnarfirði fyrir nýjar höfuðstöðvar félagsins, þá hafa nýir leigusamningar verið gerðir m.a. í Austurstræti 12a, á Höfðabakka og á Hallveigarstíg og verið er að vinna að gerð leigusamninga á fleiri stöðum. Brátt lýkur umfangsmiklum framkvæmdum á Eiríksgötu, þar sem um 5.000 fermetra endurnýjað húsnæði verður afhent Landspítala í árslok.

Á síðustu dögum októbermánaðar luku Reitir við sölu á nýju hlutafé, en seldir voru 120 millj. hlutir í forgangsréttarútboði hluthafa félagsins fyrir 5.160 millj. kr. en alls bárust áskriftir fyrir rúmlega tvöföldu því magni sem í boði var. Hlutafjáraukningin styrkir félagið enn frekar og gerir því kleift að glíma við afleiðingar veirunnar og eflir getu þess til að nýta áhugaverða fjárfestingarkosti á næstu mánuðum.“