Leigutekjur Reita fasteignafélags nam rúmum 10 milljörðum króna árið 2016 sem er aukning frá tæplega 9 milljörðum árið 2015 um 12,4%. Rekstrarhagnaðurinn nam tæpum 7 milljörðum en hagnaður ársins nam 2.417 milljónum króna, samanborið við 7.397 milljónir króna árið 2015.

Matshækkun fjárfestingareigna félagsins hækkaði um 347 milljónir króna á síðasta ári, en á árinu 2015 nam matshækkunin 6.548 milljónum króna.

Greiða milljarð í arð

Félagið stefnir að því að greiða út 1.046 milljónir króna í arð, eða sem nemur 1,45 krónur á hlut, og verður arðleysisdagurinn 16. mars, arðsréttindadagur 17. mars og arðgreiðsludagur 31. mars.

Námu leigutekjurnar 10.035 milljónum króna á árinu 2016, en árið áður námu þær 8.927 milljónum króna, en aukningin nemur 12,4% milli ára. Má rekja stærsta hluta aukningarinnar til breytinga á eignasafninu meðan tekjur af óbreyttu eignasafni jukust um um rúmt prósent umfram verðlag.

Nýtingarhlutfall eigna félagsins batnaði milli ára og fór úr 95,7% í 96,9%. Rekstrarkostnaður fjárfestingareigna félagsins hækkaði úr 2.120 milljónum króna í 2.565 milljónir króna sem er aukning um 21% á milli ára. Rúmlega helmingur þess kemur til vegna hærri fasteignagjalda vegna hærra fasteignaverðs.

Fjármagnsgjöld og stjórnunarkostnaður jókst

Stjórnunarkostnaðurinn jókst einnig eða úr 455 milljónum króna í 545 milljónir króna, sem skýrist af auknum launakostnaði og fjölgun starfsfólk að mestu leyti.

Virði fjárfestingareigna félagsins jókst um 14.772 milljónir króna, en þar kemur að stærstum hluta til kaup á fasteignafélögum í rekstri Stefnis.

Fjármagnsgjöld jukust úr 3.529 milljónum króna í 4.355 milljónir króna, en þar vegur mest aukning vaxtaberandi skulda.

Helstu lykiltölur reikningsins eru:

  • Leigutekjur námu 10.035 milljónir króna (2015: 8.927 milljónir króna) og jukust um 12,4% frá fyrra ári
  • Rekstrarhagnaður (NOI) ársins var 6.925 milljónir króna (2015: 6.352 milljónir króna)
  • Matshækkun fjárfestingareigna nam 347 milljónir króna (2015: 6.548 milljónir króna)
  • Hagnaður ársins var 2.417 milljónir króna (2015: 7.397 milljónir króna)
  • Hagnaður á hlut var 3,3 krónur (2015: 9,8 krónur)
  • Virði fjárfestingareigna var 125.719 milljónir króna þann 31.12.2016 samanborið við 110.947 milljónir króna í lok árs 2015
  • Eigið fé í lok ársins var 46.156 milljónir króna (2015: 46.736 milljónir króna)
  • Eiginfjárhlutfall var 34,4%. (2015: 41,4%)
  • Vaxtaberandi skuldir í lok ársins námu 76.223 milljónum króna (2015: 57.158 milljónum króna)
  • Stjórnendur vænta þess að rekstrarhagnaður ársins 2017 verði 7.350 til 7.450 milljónir króna miðað við núverandi eignasafn

Afkoma ársins 2016 ber merki þess að eignasafn Reita hefur tekið breytingum á árinu," segir Guðjón Auðunsson forstjóri Reita í fréttatilkynningu um afkomu ársins 2016.

„Með kaupum og sölu fasteigna á árinu telur eignasafnið nú um 440 þúsund fermetra í um 140 fasteignum samanborið við um 410 þúsund fermetra í lok árs 2015.

Nýju eignirnar falla vel að eignasafni Reita eins og rekstrarniðurstaða ársins ber með sér. Á fyrri hluta árs munum við breyta uppbyggingu samstæðunnar í samræmi við nýtt skipulag sem kynnt er samhliða birtingu ársuppgjörsins.

Með því er verið að breyta óhentugu skipulagi dótturfélaga sem rekja má til þess hvernig félagið byggðist upp frá því um aldamót.

Leigutekjur af óbreyttu eignasafni héldu áfram að vaxa umfram verðlag og nýting eignasafnsins jókst nokkuð og er nú 96,9%. Breytingar á fasteignagjöldum skýra að mestu leyti hækkun rekstrarkostnaðar fasteigna.

Rekstrarniðurstaða ársins 2016 er í takti við áætlanir og endurspeglar eins og áður þann stöðugleika sem félagið býr við. Arðsemi tekjuberandi eigna á árinu var um 6% og arðsemi eiginfjár rúm 5%.

Við hjá Reitum erum bjartsýn á rekstrarhorfur ársins 2017. Við gerum ráð fyrir áframhaldandi vexti eignasafnsins á árinu, bæði með kaupum á fasteignum og fasteignaþróun, til dæmis á Laugavegi 176 og á Kringlureit.“