*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 23. ágúst 2021 17:15

Hagnaður Reita nam 861 milljón

Hreinar leigutekjur Reita á öðrum ársfjórðungi jukust um 3,5% á milli ára og námu nærri tveimur milljörðum króna.

Ritstjórn
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita
Aðsend mynd

Fasteignafélagið Reitir hagnaðist um 861 milljón króna á öðrum ársfjórðungi en félagið tapaði 191 milljón á öðrum fjórðungi 2020. Afkoma Reita á fyrstu sex mánuðum ársins var samtals jákvæð um 1.856 milljónir króna. Þetta kemur fram í uppgjöri sem félagið birti eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Leigutekjur jukust um 10% milli ára og námu 2,8 milljörðum. Rekstrarkostnaður fjárfestingareigna hækkaði þó úr 662 milljónum í 856 milljónir milli ára. Hreinar leigutekjur á öðrum ársfjórðungi jukust um 3,5% á milli ára. Aukin verðbólga er sögð stærsti áhrifaþáttur í tekjuaukningu en meðalverðlag hækkaði um 4,3% milli ára. Tekjuvegið nýtingarhlutfall fasteignasafnsins var 95% á fyrri hluta ársins. Hrein fjármagnsgjöld voru neikvæð um 2 milljarða.  

Matsbreytingar fjárfestingareigna voru jákvæðar um 1,3 milljarða á fjórðungnum. Fjárfestingareignir Reita eru til bókar á 156,0 milljarða í lok júní samanborið við 152,6 milljarða í lok síðasta árs.

Áætlað er að leigutekjur samstæðunnar hafi dregist saman um 244 milljónir á öðrum ársfjórðungi og 506 milljónir á fyrri helming ársins, vegna efnahagslegra áhrifa Covid. Langstærstur hluti tapaðra leigutekna kemur frá hótelum. Fram kemur að öll hótel hafi opnað aftur og gert er ráð fyrir að frá og með fjórða ársfjórðungi verði tekjur vegna hóteleigna nálægt því sem var fyrir faraldurinn.

Verslun og þjónusta er sögð vera í góðum vexti og fram kemur að velta hafi verið í sögulegu hámarki í Kringlunni.

Reitir tilkynntu í lok júní um kaup á fasteignum að Háholti 13-15 í Mosfellsbæ, Dalbraut 1 á Akranesi og Hafnargötu 2 á Reyðarfirði frá Festi. Fasteignafélagið tilkynnti upphaflega einnig um kaup á helmingshlut Festi á fasteigninni á Austurvegi 1-5 en Rúmfatalagerinn steig inn í viðskiptin og nýtti sér forkaupsrétt á eigninni.

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita:

„Uppgjör fyrri árshelmings ber merki um að atvinnulífið sé almennt við góða heilsu þrátt fyrir að Covid-19 faraldurinn sé ekki enn að fullu að baki. Tekjur hafa verið að aukast eftir því sem liðið hefur á árið og áhrif faraldursins minnkað í takti við spár félagsins.

Fjórða bylgja faraldursins er ekki að hafa jafn mikil áhrif á leigutaka félagsins eins og fyrri bylgjur höfðu. Verslun og þjónusta er í góðum vexti og er velta í sögulegu hámarki í Kringlunni. Nýting eigna hefur aukist jafnt og þétt síðustu mánuði og innheimta leigutekna er ágæt.

Efnahagur Reita er mjög traustur og var skuldsetningarhlutfall um mitt ár 57,6%. Reitir hafa samið um kaup þriggja verslunarkjarna, samtals um 9.900 m2 fyrir 3.286 m.kr. Áætluð áhrif kaupanna á NOI eru 196 m.kr. á ársgrundvelli. Afhending fasteignanna er áætluð í upphafi fjórða ársfjórðungs.

Umhverfismál og sjálfbærni skipa sífellt viðameiri sess í rekstri Reita. Vinna við BREEAM In-Use vottun skrifstofuhúsnæðis Landspítala við Skaftahlíð 24 er hafin og tvö þróunarverkefni eru í BREEAM Communities vottun.“

Stikkorð: Reitir uppgjör