Kanadíska farsímafyrirtækið Research in Motion, sem framleiðir Blackberry símana, skilaði aðeins níu milljóna dala hagnaði á ársfjórðungnum sem lauk þann 1. desember sl. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaður fyrirtækisins 265 milljónum dala.

Þá gerðist það í fyrsta skipti í sögu fyrirtækisins að áskrifendum fækkaði og fóru þeir úr 80 milljónum í 79 milljónir. Velta dróst saman um 47% milli ára og nam 2,7 milljörðum dala.

RIM hefur átt í mjög alvarlegum vandræðum undanfarin ár og hefur ekki tekist að keppa við nýrri og vinsælli iPhone og Android snjallsíma. Stjórnendur fyrirtækisins binda aftur á móti miklar vonir við nýtt stýrikerfi og ný símtæki sem koma út í janúar á næsta ári.