Hagnaður Rio Tinto, móðurfélags Rio Tinto Alcan á Íslandi sem rekur álverið á Straumsvík, jókst um 93% á fyrri hluta ársins. Aukinn hagnaður er rakinn til hærra verðs á hrávörumarkaði. Þetta kemur fram í frétt AFP.

Hagnaðurinn nam 3,31 milljarði Bandaríkjadollara á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 1,71 milljarð dollara árið áður. Rekstrarhagnaður félagsins nam 3,94 milljörðum dollara og jókst um 152%. Hann var þó undir spá greiningaraðila.

Haft var eftir forstjóra félagsins, Jean-Sebastien Jacques, í fréttatilkynningu að niðurstöðurnar væru mjög sterkar. Hann sagði einnig frá því að hluthafar fengu í heildina 3 milljarða dollara greiddan út í arð vegna bættrar afkomu.

Nýverið var greint frá því að álver Rio Tinto í Straumsvík hafi verið rekið með 28,8 milljón dollara tapi í fyrra eða því sem jafngildir 3,3 milljörðum króna ef tekið er mið af gengi í árslok 2016. Sölutekjur félagsins hér heima námu 386,6 milljónum dollara og drógust saman um 15% milli ára.