Rússneski olíurisinn Rosneft hagnaðist um 134 milljarða rúblna á öðrum ársfjórðungi, sem jafngildir um 259 milljörðum íslenskra króna. Er þetta samdráttur upp á 22% frá sama tímabili í fyrra. Þrátt fyrir það var afkoma fyrirtækisins á öðrum fjórðungi betri en búist hafði verið við.

Á öðrum fjórðungi ársins 2014 var olíuverð ríflega 100 dalir á fatið, en á sama tíma í ár var það á bilinu 55-65 dalir á fatið. Veiking rússnesku rúblunnar vann á móti lækkandi olíuverði, því Rosneft selur olíu sína fyrir Bandaríkjadali.

Olíuframleiðsla Rosneft hélst óbreytt á milli ára og var um 5,2 milljónir fata á dag.