Hagnaður af rekstri Ríkisútvarpsins dróst saman um 99,3% á milli ára, eða úr 321,3 milljónum króna árið 2017 í 2,2 milljónir á síðasta ári. Þar af munaði mestu um að aðrar tekjur félagsins, sem væntanlega eru mikið til söluhagnaður hluta lóðar félagsins við Efstaleiti, fór úr 174,3 milljónum króna árið 2017 í tæplega 29 milljónir á síðasta ári.

Þess utan jukust rekstrartekjur Rúv um 3,5% á milli ára, eða úr 6,45 milljörðum í 6,68 milljarða. Þar af jukust tekjur þeirra af almannaþjónustu, sem greiddar eru úr ríkissjóði, úr 4.129 milljónum í 4.235 milljónir, eða um 2,56%, meðan tekjur félagsins af samkeppnisrekstri jukust úr 2.322,4 milljónum í 2.351,2 milljónir, eða um 1,24%.

Þar af drógust tekjur RÚV af auglýsingum og kostun eilítið saman, eða úr 2.038 milljónum í 2.035,8 milljónir á milli ára, neðan aðrar tekjur af samkeppnisrekstri jukust úr 284,4 milljónum í 315,4 milljónir.

Kostnaður jókst um 7,5%

Á sama tíma jukust rekstrargjöld félagsins úr 5.958,7 milljónum í 6.418,8 milljónir, eða um 7,5%. Rekstrarhagnaður félagsins lækkaði því um tæplega 57%, úr tæplega 667 milljónum króna í 287,1 milljón króna. Hrein fjármagnsgjöld lækkuðu á sama tíma úr 291,8 milljónum í 284,4 milljónir, en afkoman fyrir tekjuskatt fór úr 375,2 milljónum í 2,8 milljónir.

Eins og áður segir var samið um sölu á byggingarrétti á lóð við Efstaleiti í október 2015, og var ábatinn nýttur til niðurgreiðslu skulda. Heildareignir félagsins 31. desember námu 7.685 mkr., eigið fé var 2.192 mkr. og eiginfjárhlutfall 28,5%. Eiginfjárhlutfallið hefur hækkað mikið á síðustu árum, það var 5,5% árið 2014.

Um langa hríð hefur skuldabréf vegna uppgjörs á eldri lífeyrisskuldbindingum verið þungur baggi á starfsemi RÚV segir í fréttatilkynningu. Um árabil hefur félagið átt í erfiðleikum með að þjónusta lánið sem hefur haft stuttan en þungan afborgunarferil. Sem liður í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins samdi RÚV á árinu 2018 við LSR um skilmálabreytingu lánsins. Við það lækkuðu vextir af láninu úr 5% í 3,5%, lánstími lengdist til ársins 2057 og höfuðstóll hækkaði til samræmis. RÚV hefur heimild til uppgreiðslu án kostnaðar frá 1. apríl 2025.

Útvarpsstjóri segir Rás 1 á blómaskeiði

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir árið 2018 hafa einkenndist af grósku og nýsköpun í starfsemi RÚV. „Innleiðing nýrrar stefnu gengur vel og aukin áhersla á íslenskt efni og þjónustu við börn virðist falla í kramið hjá landsmönnum,“ segir Magnús Geir.

„Það er gaman að sjá að Rás 1 er á blómaskeiði og hvað leikið íslenskt efni á mikinn hljómgrunn meðal landsmanna og erlendis. Ég er þakklátur frábæru starfsfólki RÚV fyrir þann árangur sem hefur náðst og yfirvegaðan og hallalausan rekstur. Framundan eru fjölmargar áskoranir sem tengjast breytingum í fjölmiðlaheiminum á heimsvísu, þeim þurfum við að mæta með enn meira framboði á íslensku efni og þróun nýrra miðlunarleiða.“