*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 16. apríl 2021 13:28

Hagnaður S4S tvöfaldaðist í fyrra

Góður gangur er hjá S4S-samstæðunni. Velta jókst um 16% í heimsfaraldrinum og EBITDA jókst úr 283 milljónum í 477 milljónir.

Ritstjórn
Pétur Þór Halldórsson er forstjóri og stofnandi S4S.
Gígja Einars

Hagnaður fata- og útivistarsamstæðunnar S4S ehf. ríflega tvöfaldaðist í fyrra úr 117 milljónum í 251 milljón króna á milli ára. 

Rekstrartekjur félagsins jukust úr 3,6 í 4,2 milljarða á milli ára eða um 16%. Þá jókst rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) og nam 477 milljónum miðað við 283 milljónir króna árið áður. Rekstarhagnaður nam 401 milljón en 209 milljónum króna árið á undan.

Pétur Þór Halldórsson forstjóri S4S segir að afkoma ársins 2020 sé gleðileg og að starfsfólk S4S hafi sýnt mikla þrautsegju og útsjónarsemi á ótrúlegum tímum. Félagið hafi ráðist í margar breytingar á árinu og fleiri breytingar séu fyrirhugaðar á þessu ári.

„Árið í fyrra sýndi okkur enn frekar hve mikilvæg netverslunin okkar er og ákváðum við að fara í miklar innviðabreytingar á þeim. Við ákváðum að setja mikinn kraft í að gera þær notendavænni, hraðvirkari og nútímavæddari. Úr varð að verið er að smíða þær allar frá grunni, en í fyrra vorum við með 3 netverslanir og á þessu ári verða þær fimm, hver um sig aðlöguð að þeim vörum sem seldar eru en allar með sameiginlegri körfu, sem er tæknilega flókið en nauðsynlegt að okkar mati.

Þá erum við að uppfæra allt sölukerfið okkar, sem er gríðarlega mikil vinna auk þess að vera að taka í notkun nýtt birgðakerfi og bæta við handskannakerfi. Gjafakortið okkar, sem er eitt kort sem virkar í öllum verslunum okkar, var uppfært í lok árs 2020 þannig að hægt væri að nýta það í netverslunum okkar hefur nú einnig verið virkjað í „wallet“ í snjallsímum. Þar uppfærist innistæða í rauntíma og talar beint við kerfin okkar. Við erum gríðarlega stolt af þessu, en þróunin heldur áfram því fyrirhugað er að inneignarnóturnar fari einnig inn í sama kerfi.“

Sjá einnig: Úr bílskúr í rúmlega 3 milljarða veltu

Vinna að framtíðarverslun

Kostnaðarverð seldra vara hækkaði úr 1,97 milljörðum í 2,36 milljarða króna. Þá lækkuðu laun og launatengd gjöld úr 815 milljónum króna í 804 milljónir króna á milli ára þó ársverkum hafi fjölgað úr 85 í 89 á milli ára en gera má ráð fyrir að samkomutakmarkanir á síðasta ári eigi þátt í að skýra muninn. 

S4S ehf. rekur fjölda verslana í Reykjavík, ásamt netverslununum Air.is, Skor.is og Ellingsen.is, að auki er talsverð heildsölustarfsemi innan samstæðunnar.

Pétur segir að unnið sé að opnun framtíðarverslunar S4S þegar ný verslun Steinar Waage verður opnuð í Smáralind í sumar.

„Nýja verslunin mun einnig hýsa höfuðstöðvar netverslunarinnar og verður mikil tenging þar á milli sem mun flýta öllu afhendingarferli netpantana. Þessi verslun er hugsuð sem ný nálgun; hún verður mjög tæknivædd og meðal annars beintengd vildarkerfi okkar og gjafakortunum á þann hátt að viðskipavinir okkar sem eiga inneignir hjá okkur munu fá áminningu í símann þegar þeir koma í verslunina.“

„Nýja verslunin er staðsett í rýminu þar sem fataverslunin Sautján er í dag og þar sem það er inngangur beint út á bílaplanið þá höfum við marga möguleika þar varðandi afhendingu á vörum í netverslun. Til dæmis munum við vera með okkar eigin póstbox þar fyrir utan. Samhliða þeirri vinnu að þróa og hanna þessa nýju verslun hafa nokkrar af verslunum okkar fengið andlitslyftingu á síðustu mánuðum, t.d. Ellingsen í Reykjavík, Steinar Waage Kringlunni og Kaupfélagið Smáralind. Auk þess mun Ellingsen á Akureyri opna í nýju framtíðarhúsnæði í haust, sem er mun stærra en eldra húsnæði,“ bætir hann við.

Stærstu hluthafar félagsins eru fyrrnefndur Pétur Þór Halldórsson, forstjóri og stofnandi félagsins, og Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, sem hvor um sig eiga 40% hlut í félaginu.

Eignir félagsins námu 1,6 milljörðum króna í árslok en þar af námu vörubirgðir milljarði króna. Þá nam eigið fé félagsins 772 milljónum í lok árs og skuldir 851 milljón króna.

Félagið greiddi 110 milljónir króna til hluthafa í fyrra með lækkun hlutafjár. Lagt er til að 230 milljónir verði greiddar í arð vegna  starfsemi síðasta árs.