Hagnaður Samherja hf. rekstrarárið 2015 nam 13,9 milljörðum króna. Þetta er hærri hagnaður en árið áður, en þá nam hann 11,2 milljörðum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samherja.

Eignir Samherja í lok árs 2015 voru 119 milljarðar, miðað við 116 milljarða á sama tíma árið áður.

Rekstrartekjur fyrirtækisins á árinu 2015 voru tæpir 84 milljarðar, en voru þær 78 milljarðar árið áður. „Afkoma af reglulegri starfsemi ársins 2015 var betri en árið á undan sem skýrist af góðri afkomu erlendrar starfsemi,“ kemur fram í tilkynningunni. Rekstrargjöldin námu tæpum 64 milljörðum - en árið 2014 voru þau 62 milljarðar.

Eigið fé Samherja í lok tímabilsins nam 83 milljörðum sem er hærra en árið áður þegar það nam um 75 milljarða.

Tillaga er um að arðgreiðsla til hluthafa nemi 10 % af hagnaði félagsins eða um 1,4 milljörðum króna.

Stærstu fjárfestingar

Stærstu fjárfestingar Samherja á árinu voru vegna nýsmíði ísfiskskipa. Stendur til með að afhenda þau skip á árinu 2017. Erlendis voru helstu fjárfestingarnar meðal annars nýsmíði fyrir dótturfélög Samherja í Kanada og Þýskalandi - ásamt nýsmíði tveggja skipa fyrir dótturfélög í Frakklandi og Spáni. Kemur einnig fram að góður efnahagur sé nú nýttur til að fjárfesta í nýjum atvinnutækjum.

Haft er eftir Þorsteini Má Baldvinssyni að að það sé nauðsynlegt að fjárfesta í nýjum framleiðslutækjum. Þetta er meðal annars gert til að búa starfsfólki félagsins ásættanlegan aðbúnað og vinnuaðstöðu. Horfir Þorsteinn Már til framtíðar með því að endurnýja flotann.