Hagnaður Samherja nam 22 milljörðum króna á árinu 2013. Er þetta besta afkoma í sögu félagsins.

Allar afkomueiningar Samherja skiluðu hagnaði hjá félaginu og er það fimmta árið í röð sem það gerist. Rekstrartekjur Samherja og dótturfélaga voru tæpir 90 milljarðar króna árið 2013 eins og árið áður. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 25,4 milljörðum króna, samanborið við 21,7 milljarða árið 2012. Hagnaður ársins eftir tekjuskatt nam 21,9 milljörðum króna.

Eignir samstæðunnar námu í lok árs 2013 samtals 110,7 milljörðum króna. Heildarskuldir og skuldbindingar voru á sama tíma 45,9 milljarðar og bókfært eigið fé 64,8 milljarðar króna. Skuldir við innlendar lánastofnanir námu um 22 milljörðum króna í árslok og hafa lækkað um tæpa 5 milljarða króna það sem af er árinu 2014. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 58,5% í árslok.

Veltufjármunir voru 40,8 milljarðar króna og nettóskuldir samstæðunnar voru jákvæðar sem nemur 6,1 milljarði króna. Fjárfestingar á árinu námu samtals 5,1 milljarði króna og var stærsta fjárfestingin í línuskipinu Önnu EA sem keypt var frá Noregi.

Þá bætir umtalsverður söluhagnaður afkomu fyrirtækisins töluvert en dótturfélög Samherja seldu fimm skip og aðrar eignir sem tengjast útgerð við strendur Afríku. Hagnaður af sölu eignanna nam 7,7 milljörðum fyrir tekjuskatt og hefur veruleg áhrif á heildarafkomu félagsins.

„Rekstur okkar árið 2013 gekk að mörgu leyti vonum framar auk þess sem sala eigna hefur mikil áhrif á afkomuna sem er í heild mjög góð“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í tilkynningu frá félaginu.

Hann segir að hins vegar séu alltaf blendnar tilfinningar þegar eignir séu seldar en á árinu voru eignir sem tengjast útgerð við Afríku og vörumerki seld og er þriðjungur hagnaðar ársins söluhagnaður vegna þess. „Við seldum góðar eignir sem búið var að leggja mikla vinnu í að breyta og bæta. Það er því alltaf ákveðin eftirsjá þegar horft er til baka og ekki síst í því góða fólki sem hafði tekið þátt í þessu með okkur. Efnahagur okkar og rekstur minnkaði umtalsvert í kjölfarið og verkefni okkar er að fylla í það skarð á næstu misserum.“